139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[11:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis fagna þessum áfanga og samstöðu um að afgreiða þetta mikilvæga mannréttindamál sem ákvæðið sannarlega er. Evrópuráðið hefur rannsakað og borið saman árangurinn af mismunandi aðferðum í þessum efnum og þar á meðal og ekki síst austurrísku leiðina svonefndu og niðurstaða af rækilegri skoðun þar, bæði í mannréttindanefnd Evrópuráðsins og nefnd um jafnan rétt og jafna möguleika karla og kvenna, var að hvetja aðildarríki til að fara þessa leið og fyrir því höfum við, mörg hver hér, barist lengi.

Ég fagna þessu sérstaklega. Þetta kostar ekki peninga og er kannski ekki stórt mál í hugum margra en í mínum huga er það mjög stórt og bætist við mörg önnur góð mál á sviði mannréttinda- og jafnréttismála sem þokast hafa í rétta átt á þessu kjörtímabili.