139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[11:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum að lögfesta enn eitt mannréttindamálið í stjórnartíð hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég fagna því að við erum nú, Alþingi, að ákveða að þolendur í ofbeldi í nánum samböndum njóti friðhelgi einkalífsins. Í stað þess að búa við þann ótta að þurfa að fara út af heimili með börn, jafnvel um miðjar nætur, geta nú þolendur ofbeldis fengið að vera á sínu heimili en gerendurnir eru fjarlægðir út af heimilinu.

Eins og hæstv. innanríkisráðherra sagði eru þetta löngu tímabær mannréttindi til handa þolendum ofbeldis og ég fagna því að fá tækifæri til að taka þátt í að segja já við þeirri lagasetningu.