139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[11:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Með þessu máli eru hámarksrefsingar fyrir mansal hækkaðar úr 8 árum í 12 og það má færa mjög góð rök fyrir því að þeir sem gerast brotlegir við þessi ákvæði almennra hegningarlaga eigi að sæta þungum refsingum. Á málinu eru hins vegar fleiri hliðar, nefnilega sú að hér er venjulega um að tefla harðsvíraða glæpamenn sem stunda skipulagða glæpastarfsemi. Með því að þyngja refsingarnar má halda því fram að þessir glæpamenn fái frekari hvata til að kúga og þvinga þau vitni sem eru til staðar og geta leitt til þess að yfir þá verði komið lögum, en í mansalsmálunum eru það einmitt brotaþolarnir sjálfir, fórnarlömbin sem eru helstu vitnin. Í tengslum við það að samþykkja þetta mál skora ég á hæstv. innanríkisráðherra að taka það til skoðunar og auka vitnavernd og stöðu vitnanna og fórnarlambanna enn frekar til að markmiðinu verði náð eins og að er stefnt.