139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

verslun með áfengi og tóbak.

703. mál
[11:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil sem formaður nefndarinnar róa þingheim í því að hér er ekki verið að gera neinar grundvallarbreytingar á Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Málið varðar fyrst og fremst það að annars vegar er fallið frá því að hafa sérstaka stjórn þar en sú þróun hefur almennt orðið í ríkisrekstrinum að stjórnir hafa heldur verið á undanhaldi og kallað á skýra ábyrgð forstöðumanna fyrir sínum rekstri og ráðuneytanna sjálfra.

Hins vegar eru hér lögfestar heimildir fyrir Áfengis- og tóbaksverslunina til að hafa reglur til að geta hafnað einstökum vörutegundum sem verslunin telur að samræmist ekki sjónarmiðinu um samfélagsábyrgð eða stefnu stjórnvalda eins og hún er í áfengismálum á hverjum tíma og ekki nema sjálfsagt að svo alvarlegar aðgerðir eins og það að hafna vörum í einokunarverslun sé gert á grundvelli lagaheimilda en ekki þeirra reglna sem hingað til hefur verið byggt á.