139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Hv. formaður efnahags- og skattanefndar neitar því að hér sé um að ræða flokksræði varðandi samkomulagið sem gert var á milli helstu flokka á þingi um breytingar á frumvarpinu sem við ræðum núna. Það hefði kannski verið réttara hjá mér að kalla þetta flokkaræði. Ég átti nefnilega fyrst og fremst við það þegar ég kom hingað upp til að mótmæla því að ekki skuli vera leitast við að ná samkomulagi í nefndum þingsins sem fjalla um ákveðin frumvörp og ekki leitað eftir samþykki nefndarmanna fyrir samkomulagi um hvernig eigi að fara með mál í gegnum þingið.

Hvað varðar að láta lífeyrissjóðina taka á sig hluta af vaxtabyrðum heimilanna þá vil ég bara minna hv. þm. Helga Hjörvar á að ég hef alltaf talað fyrir almennri aðgerð, en ekki sértækum aðgerðum, almennri aðgerð sem felst fyrst og fremst í lækkun höfuðstóls lána en ekki niðurgreiðslu á vöxtum sem ríkið þarf að gera en ekki lánastofnanir. Enda hefur síðan komið í ljós að ríkið er í stökustu vandræðum að láta lánastofnanir taka á sig þann kostnað.