139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ekki öfunda ég hv. þm. Helga Hjörvar að flytja þá ræðu sem hann flutti hér áðan vegna þess að hún fólst í eintómum leiðréttingum á mistökum sem hafa verið gerð bæði fyrr, fyrir einu eða tveimur árum, og í frumvarpinu sjálfu.

Hann gat um samkomulag sem gert hefði verið um að fresta ákvæðum um heimildir Seðlabankans til gjaldeyrishafta um einn mánuð, sem nefndin þarf væntanlega að flytja, og síðan frumvarpið verði flutt í haust og samþykkt. Það var aldrei hluti af samkomulaginu. Hluti af samkomulaginu fólst í því að fresta þessum heimildum um einn mánuð, sem mér finnst reyndar vera allt of stutt, og ég á mjög erfitt með að sætta mig við, og svo hins vegar að umræðan um frumvarpið haldi áfram. Við getum ekkert lofað því að Alþingi samþykki eitt eða neitt í september enda voru það að mínu mati meiri háttar mistök að setja gjaldeyrishöftin í lög.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út af öllum þessum umræðum: Í auðlegðarskattinn vantar lífeyrisréttindi, sem eru mjög verðmæt og margir eiga upp á hundruð milljóna, þau eru ekki inni í auðlegðarskattinum. Finnst hv. þingmanni það réttlátt og eðlilegt að maður sem sparar í lífeyrissjóði borgi ekki auðlegðarskatt af því eins og hinn sem sparar í húsnæði eða innstæðum og slíku?

Svo er með 16. gr. og þessa skattlagningu á lífeyrissjóði, sérhver skattlagning á lífeyrissjóði kemur niður á lífeyriskjörum í almennu sjóðunum en ekki í opinberu sjóðunum heldur hækkar iðgjald ríkisins í þá sjóði og kemur niður á hinum fyrrnefndu af tvöföldum þunga. Sérhver skattlagning á lífeyrissjóði kemur því niður á launþegum, almennum launþegum í landinu, en ekki niður á ríkisstarfsmönnum að neinu leyti.