139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér var mörgum efnisatriðum hreyft og mér gefst ekki tóm í þessu andsvari til að bregðast við nema nokkrum þeirra. En hv. þingmaður fylgir því þá bara eftir í sínu síðara andsvari.

Hvað varðar þetta með skattlagninguna á lífeyrissjóðina er það nú svo að kostnaður þeirra af vaxandi örorku er umtalsverður og hækkar ört. Það eru sannarlega sannfærandi rök sem færð hafa verið fram fyrir því að með því að ráðstafa umtalsvert meira fé til endurhæfingar, eins og til að mynda Danir hafa gert, muni lífeyrissjóðirnir spara miklu meiri útgjöld en þeir verða fyrir með þessu fyrirkomulagi. Því vil ég svara til um það atriði.

Ég vona síðan að ég hafi ekki sagt að samkomulag væri um að samþykkja gengisfrumvarpið hér á septemberþingi. Það er samkomulag um að afgreiða það á septemberþingi. Auðvitað er málið í höndum nefndarinnar og það mun verða þar til umfjöllunar og hún áskilur sér allan rétt til að gera á því þær breytingar sem hún telur að kunni að þurfa og kannski alveg að falla frá löggjöfinni. En ég hygg að það sé sameiginlegur skilningur að málið hljóti afgreiðslu á septemberþinginu og enginn muni varna því að það fái lýðræðislega afgreiðslu þá þó að menn hafi lagst gegn því að það fengi hana núna.