139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og samflokksmanni hans, hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, fyrir ágætar ábendingar í nefndaráliti þeirra við þetta mál. Af því tilefni tók ég fram við framsögu mína að verðtrygging persónuafsláttar skyldi miðast við þann grunn sem var í desember 2010, 129,7 stig, uppfærast með breytingum næstu 12 mánaða og taka gildi frá 1. janúar 2012. Ég tel að með því móti sé girt fyrir að sá misskilningur geti orðið að aðeins eigi að vera um 11 mánaða hækkun að ræða.

Hvað varðar auðlegðarskattinn er gott að fá ábendingar um leiðir sem hægt væri að nota til skattsniðgöngu en þessa ábendingu hefur fjármálaráðuneytið skoðað sérstaklega og telur að hún sé í sjálfu sér þegar til staðar í lögunum og hafi ekki valdið neinum vandkvæðum í skattframkvæmdinni og að tóm sé til að bregðast við því ef svo verði. Almennt um auðlegðarskattinn vil ég þó segja að hann var settur til þriggja ára. Þeir sem eru vel í efnum hafa staðið skil á honum og þannig borið sérstakar byrðar í gegnum erfiðasta hjallann í endurreisn íslensks efnahagslífs en hann á að falla niður. Ég tel að við eigum fyrst og fremst að leggja áherslu á að það verði efnt fremur en að vera að draga inn í hann hluti eins og lífeyrisréttindi eða gera einhverjar breytingar á honum núna, enda sé þetta tímabundin ráðstöfun rétt eins og gjaldeyrishöftin.