139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta um ráðstafanir í ríkisfjármálum í tengslum við kjarasamninga.

Ég vil byrja á að fagna 6. gr. frumvarpsins sem á að tryggja að persónuafsláttur taki breytingum ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Vísitölubindingin mun koma í veg fyrir að skattbyrði þeirra sem lægstu tekjurnar hafa þyngist vegna rýrnunar persónuafsláttar. Hér er þó um 3 milljarða kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóð að ræða sem ekki verður séð að sé mætt annars staðar í frumvarpinu með nýrri tekjuöflun.

Frú forseti. Strax er það nefndarálit sem ég mæli fyrir orðið úrelt þrátt fyrir að ég hafi umskrifað það á mánudagsmorgun eftir að skriflegar breytingartillögur meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar lágu fyrir. Það kom fram hér í framsögu formanns nefndarinnar að það eru ekki lengur fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og skattanefnd heldur fulltrúar Vinstri grænna sem leggja til að 10. gr. falli niður. Í nefndaráliti mínu kemur fram að ég sé ósammála fulltrúum Samfylkingarinnar og er ég þar af leiðandi líka ósammála fulltrúum þingflokks Vinstri grænna um að fella eigi niður þessa grein. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að 10. gr. frumvarpsins verði samþykkt til að draga sem fyrst úr tapi ríkissjóðs vegna rafrænna kaupa á þjónustu frá útlöndum. Samkvæmt núgildandi ákvæði ber aðila sem kaupir rafrænt afhenta þjónustu að innheimta og skila virðisaukaskatti vegna kaupanna nema hann hafi heimild til að telja virðisaukaskattinn til innskatts. Þetta vita fæstir kaupendur og láta því hjá líða að greiða virðisaukaskattinn. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að fólk ástundi ómeðvitað skattundanskot eins og þetta.

Í 9 gr. frumvarpsins er lagt til að lífeyrissjóðirnir greiði sérstakan eignarskatt til að fjármagna hluta af sérstakri vaxtaniðurgreiðslu til heimila á árunum 2011 og 2012. Gert er ráð fyrir að ríkið fjármagni greiðsluna með innleiðingu sérstaks eignarskatts á lífeyrissjóði og með hækkun svokallaðs bankaskatts í 15. gr. frumvarpsins. Fjármálaeftirlitið bendir á að um sé að ræða grundvallarbreytingu á meginreglu laga um tekjuskatt sem undanskilur lífeyrissjóði frá tekjuskattsskyldu. Ekkert fordæmi er að finna um slíkan eignarskatt á lífeyrissjóði í skattalögum nágrannalandanna.

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með Fjármálaeftirlitinu að sérstakur eignarskattur skapi varasamt fordæmi um skattlagningu eigna lífeyrissjóðanna til að fjármagna einstaka verkefni. Það er líka gagnrýnisvert að ekki skuli liggja fyrir útreikningar á hvaða áhrif skattlagning þessi muni hafa á tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóðanna. Skatturinn leggst auk þess þyngra á sjóði sem eru að fullu fjármagnaðir með sjóðssöfnun en þeim sem byggjast í meira mæli á gegnumstreymi. Frú forseti, 1. minni hluti leggur því til að 9. gr. falli brott og eins og fram kom hér fyrr í umræðunni virðist vera samkomulag um að greinin falli brott eftir að efnahags- og skattanefnd hefur tekið þá tillögu til umfjöllunar.

Frú forseti. Lífeyrissjóðakerfið byggist á greiðslum iðgjalda í sjóðina til öflunar lífeyrisréttinda. Sjóðamyndunin hefur jafnframt verið byggð upp með því að fresta skattlagningu iðgjaldagreiðslna og ávöxtunar iðgjalda þar til að útgreiðslu kemur. Um 40% af fjármagni sjóðanna eru því skattfé sem þeir ávaxta fyrir hið opinbera. Þegar sjóðirnir ná ekki hærri ávöxtun en sem nemur fjármagnskostnaði ríkis og sveitarfélaga eru engin fjármálaleg rök fyrir því að skattleggja ekki inngreiðslur í sjóðina. Íslenskir lífeyrissjóðir eru þeir næststærstu innan OECD miðað við landsframleiðslu en raunávöxtun þeirra á sparifé landsmanna hefur verið lægri en almennt gerist annars staðar frá því fyrir hrun. Það bendir til þess að lífeyrissjóðirnir séu orðnir allt of stórir fyrir íslenskt efnahagslíf. Fjárfestingartækifæri hefur skort í íslensku atvinnulífi vegna tregðu stjórnvalda og banka til að leiðrétta skuldbindingar fyrirtækja og heimila frá hruni. Gjaldeyrishöftin koma auk þess í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir geti fjárfest erlendis. Skortur á arðbærum fjárfestingarkostum setur mikinn þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar en gengi hennar er varið með fjármagnshöftum til að koma í veg fyrir gengishrun.

Frú forseti. Ég hvet stjórnarflokkana til að taka til skoðunar skattlagningu iðgjaldagreiðslna við fjárlagagerð næsta árs og falla frá álagningu sérstaks eignarskatts sem mun leiða til skerðingar á kjörum lífeyrisþega, þar sem nota á skattinn til að fjármagna sérstakar vaxtaniðurgreiðslur en ekki til að efla hlut almannatryggingakerfisins í lífeyri. Ég hvet jafnframt stjórnarflokkana til að gera ráðstafanir til að leggja skatt á tekjuauka útflutningsfyrirtækja vegna of lágs gengis krónunnar. Of lágt gengi gjaldmiðils býr til mikinn tekjuauka hjá útflutningsfyrirtækjum sem veldur verðbólguþrýstingi og það má draga úr verðbólguþrýstingnum, sem er undirliggjandi hjá útflutningsfyrirtækjum, með því að skattleggja þann hluta tekjuaukans sem er til kominn vegna of lágs gengis krónunnar.

Frú forseti. Nýlega átti sér stað uppboðsmarkaður fyrir aflandskrónur og þar kom í ljós að gengið á evrunni er um 30% hærra en hið skráða gengi hennar, þannig að ef við mundum nota þær upplýsingar til að skattleggja þennan tekjuauka útflutningsfyrirtækja höfum við þarna 50 króna mun á álandsgenginu og aflandsgenginu sem hægt væri að skattleggja þannig að ríkið fengi helminginn, eða 25 kr., og útflutningsfyrirtækin 25 kr. Auk þess væri hægt að skattleggja sérstaklega öll viðskipti með aflandskrónurnar á uppboðsmarkaði. Á þessum fyrsta uppboðsmarkaði var Seðlabankinn að bjóða 15 milljarða í erlendum gjaldeyri og það var sem sagt það magn sem fór á milli handa á uppboðsmarkaðnum. Það er líka hægt að leggja þarna á skatt til að afla ríkissjóði tekna og tryggja að ríkissjóður en ekki bara lífeyrissjóðirnir, sem eiga síðan að koma inn með erlendar eignir sínar og kaupa þessar aflandskrónur af Seðlabankanum, fái 30% tekjuauka, heldur að ríkissjóður fái helminginn eða hluta af því.

Frú forseti. Í 15. gr. er kveðið á um hækkun sérstaks bankaskatts til að fjármagna sérstaka vaxtaniðurgreiðslu einstaklinga. Hækkunin er að mati 1. minni hluta réttlætanleg í ljósi mikils hagnaðar bankanna á þessu ári. Hagnaðurinn er þó fyrst og fremst til kominn vegna tregðu bankanna við að láta niðurfærsluna á útlánasöfnum, sem færð voru yfir til þeirra frá gömlu bönkunum, ganga til lántakenda. Auk þess er mikilvægt að allar fjármálastofnanir taki þátt í aðgerðum sem hraða endurreisn efnahagslífsins.

Frú forseti. Ég leggst gegn 16. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að samkomulag aðila vinnumarkaðarins um skyldu lífeyrissjóða og launagreiðenda, til að greiða 0,13% af iðgjaldastofni sínum til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, verði lögfest. Ef greiðsluskylda launagreiðenda og lífeyrissjóða verður lögfest má gera ráð fyrir að inn í VIRK renni álíka miklir fjármunir og nú fara til reksturs heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. 1. minni hluti tekur undir það með hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, að það sé þungbært að horfa á það gerast að framlög til endurhæfingar fatlaðs og sjúks fólks séu skorin niður innan almannaþjónustunnar en launþegasamtökin hafi þagað þunnu hljóði frá hruni og nánast reist þá kröfu eina í velferðarmálum að fá peninga inn í nýjar stofnanir, nýja sjóði, undir eigin handarjaðri.

Eins og Fjármálaeftirlitið bendir á í umsögn sinni felur greiðsluskylda lífeyrissjóðanna í sér grundvallarbreytingu á lögum um lífeyrissjóði. Framlagi í lífeyrissjóði verður þá varið til annarra verkefna en að tryggja sjóðfélögum lífeyrisréttindi og það skapar að mati 1. minni hluta varasamt fordæmi.

Að lokum er mikilvægt að fyrir liggi, áður en til greiðsluskyldu launagreiðenda og lífeyrissjóða kemur, hvernig skipulagi og samhæfingu starfsendurhæfingarmála verði háttað. Það er mikilvægt að þetta liggi fyrir áður en við lögfestum þessa greiðsluskyldu til að koma í veg fyrir þróun tvöfalds endurhæfingarkerfis, þ.e. eitt kerfi fyrir fólk á vinnumarkaði og síðan annað kerfi fyrir þá sem standa fyrir utan vinnumarkaðinn.

Ég legg því til að 16. gr. frumvarpsins falli brott þannig að greiðsluskyldan verði ekki virk fyrr en samráðsnefndin hefur lokið störfum sínum og þær reglur sem eðlilegt er að settar verði um starfsemi VIRK liggi fyrir. Frú forseti. Það er ótækt að löggjöfin sé að liðka fyrir kjarasamningum með því að ástunda óásættanleg vinnubrögð við lagasetningu eins og 16. gr. felur í sér.

Frú forseti. Ég mun vísa þessari breytingartillögu, um að fella 16. gr. niður, inn í hv. efnahags- og skattanefnd á milli 2. og 3. umr. í þeirri von að framkvæmdarvaldið sjái að sér og geri aðilum vinnumarkaðarins ljóst að þessi lagasetning gengur ekki.