139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta utanríkismálanefndar.

Fyrsti minni hluti utanríkismálanefndar fagnar því að gengið er til þess að fullgilda Árósasamninginn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Samt sem áður gerir 1. minni hluti alvarlegar athugasemdir við þá leið sem valin hefur verið til innleiðingar á efnislegum atriðum samningsins hérlendis með fyrirhuguðum lagabreytingum, samanber frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins og frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Fram kom á fundi utanríkismálanefndar að íslensk stjórnvöld hafa kosið að ganga mun lengra en samningurinn sjálfur kveður á um í að opna aðgang að málsmeðferð í umhverfismálum samkvæmt svokallaðri þriðju stoð samningsins. 1. minni hluti leggur áherslu á að ákvæði samningsins um þátttökuréttindi almennings í umhverfismálum eru almenns eðlis og veita aðildarríkjunum talsvert svigrúm við innleiðingu. Í frumvörpunum sem vísað er til hér að framan er gert ráð fyrir mjög rýmkuðum heimildum til þess að kæra matskenndar framkvæmdir án þess að kærandi hafi lögvarða hagsmuni í málunum. Á fundi nefndarinnar kom fram að auk Íslands hefur einungis eitt ríki, Portúgal, valið þessa útfærslu á samningnum og opnað aðild allra að stjórnsýslukærum án beinna hagsmuna þeirra af viðkomandi máli. Það er umhugsunarefni að á öðrum Norðurlöndum, þeim ríkjum sem við berum okkur alla jafna saman við, hefur þessi leið ekki verið valin. 1. minni hluti telur að auðveldlega megi misbeita þeim aukna aðgangi að stjórnsýslukærum sem fyrirhugaður er og gerir alvarlegan fyrirvara við þann hluta innleiðingar Árósasamningsins. 1. minni hluti hvetur til þess að þessi atriði verði endurskoðuð í meðferð á fyrrnefndum frumvörpum og lýsir andstöðu við frumvörpin eins og þau voru afgreidd úr umhverfisnefnd en ítrekar að öðru leyti stuðning sinn við að Árósasamningurinn verði fullgiltur. 1. minni hluti leggur því til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Ástæðan fyrir því að ástæða var talin til að gera sérstaka athugasemd við þá leið sem hefur verið valin til þess að innleiða Árósasamninginn er sú að það skapar verulega hættu á misnotkun ákvæðisins, þ.e. þess ákvæðis sem leyfir í raun öllum, og ekki bara á Íslandi, að kæra matsskyldar framkvæmdir. Þó að það ríki mikil samstaða um mikilvægi þess að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um umhverfismál skapar slík heimild hættu á misnotkun. Það eru til öfgar á öllum sviðum, m.a. í umhverfismálum, og umhverfisverndarsamtök, sum hver, hafa orðið uppvís að því að vera fyrst og fremst í starfsemi til að afla fjár, þ.e. ráðist er í ákveðin áróðursverkefni með það að markmiði að afla tekna. Í því skyni er töluvert um að umhverfisverndarsamtök séu með mjög skipulagða starfsemi og mörg hver mjög skipulögð í fjáröflun. Þetta skapar þá hættu að menn sjái ástæðu til að kæra í raun allar matsskyldar framkvæmdir, að það sé ekki hægt að ráðast í neinar framkvæmdir án þess að þær séu kærðar af atvinnumönnum. Það er vel fyrirsjáanlegt að einhverjir gætu verið í fullri vinnu við að nýta slíkt ákvæði og kæra allar framkvæmdir, standa í stöðugum kærumálum til þess að tefja eða koma í veg fyrir framkvæmdir. Það er mjög auðvelt út á við, til að mynda fyrir erlend umhverfisverndarsamtök, að kynna það að þau séu í umhverfisvernd og séu að kæra hin og þessi verkefni án þess að þurfa endilega að útskýra nákvæmlega hvað í því felst. Þess vegna teljum við að þetta ákvæði skapi ákveðna hættu og eðlilegra sé að innleiða samninginn með þeim hætti að þeir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta hafi kærurétt en ekki aðrir.