139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

álit Eftirlitsstofnunar EFTA um Icesave.

[17:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þá yfirlýsingu sem hann hefur gefið hér. Það var mikilvægt að fyrstu viðbrögð íslenskra stjórnvalda við þessari niðurstöðu Eftirlitsstofnunarinnar kæmu fram á Alþingi strax í dag. Ég vil segja um þessa niðurstöðu almennt að því verður ekki haldið fram, miðað við sögu málsins, miðað við fyrri athugasemdir stofnunarinnar, að hún komi á óvart. Engu að síður er það þannig fyrir okkur Íslendinga að niðurstaðan er að sjálfsögðu alvarlegt mál. Það er alvarlegt mál að Eftirlitsstofnun EFTA skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að okkur beri, innan þriggja mánaða, að gera þær ráðstafanir sem hér er um að ræða og tryggja Bretum og Hollendingum aðgang að þeim hundruðum milljarða sem eru hér undir.

Okkur á Alþingi, og að ég hygg flestum Íslendingum, kemur þetta eins og ég vék að áðan ef til vill ekki á óvart vegna sögu málsins. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra, við teljum okkur hafa sterkan málstað að verja og sannarlega eru hagsmunirnir sem eru undir líka gríðarlega miklir, eða geta verið það. Allt fer það eftir því hvernig spilast úr þrotabúi hins fallna Landsbanka.

Það er í það minnsta verulega mikið umhugsunarefni að Eftirlitsstofnunin skuli hafa haldið áfram með málið undir forustu framkvæmdastjóra stofnunarinnar sem greinilega hafði á fyrri stigum málsins tekið afstöðu áður en fyrstu viðbrögð Íslendinga voru sett formlega fram. Ég tel að fullt tilefni hefði verið til að gera athugasemdir við það að hann viki ekki sæti við þessa lokaafgreiðslu.

Eftir að íslenska þjóðin kom að þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu er hlutverk okkar alveg skýrt. Við á Alþingi, í utanríkismálanefnd eins og hæstv. ráðherra hefur vikið að, munum fylgja aðgerðum íslenskra stjórnvalda eftir. Það er rétt sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra, það er góð samstaða um að vinna út frá þeirri niðurstöðu sem fékkst í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Nú er það verkefni okkar að taka til varna, það er vilji íslensku þjóðarinnar. Sá vilji íslensku þjóðarinnar birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni að þrátt fyrir þann möguleika sem nú hefur komið í ljós yrði þeim samningum sem tókust á milli ríkjanna hafnað og látið reyna á rétt okkar fyrir dómstólum. Það er okkar verkefni. Í því munum við standa saman og við skulum halda því til streitu alla leið og berjast fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar með öllum tiltækum ráðum, saman öll sem eitt.