139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

álit Eftirlitsstofnunar EFTA um Icesave.

[17:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágætar skýringar hér í þingsal og á fundi með utanríkismálanefnd áðan. Þessi niðurstaða ESA kemur sjálfsagt engum á óvart. Áður lá fyrir bráðabirgðaálit og forstöðumaður stofnunarinnar hefur verið mikill talsmaður ákveðinnar niðurstöðu í þessu máli. Það vekur hins vegar athygli hversu skamman tíma ESA gaf sér í að skila niðurstöðu í ljósi þess að oft og tíðum tekur sams konar vinna í minni málum mörg ár. Hér skilar hún hins vegar niðurstöðu rúmum mánuði eftir að Íslendingar lögðu fram rökstuðning sinn í málinu. Það hlýtur að vekja spurningar um hvort ekki hafi eitthvað verið til í þeim áhyggjum sem menn höfðu af því að búið væri að taka afstöðu fyrir fram. Það tengist ef til vill því að fyrrnefndur forstöðumaður er að láta af störfum og hefur sjálfsagt viljað klára þetta mál áður en hann hætti.

Í þessari yfirlýsingu birtist áfram það sem kalla má eftiráskýringar, m.a. um svokallaða „obligation of result“, það að Íslendingar hafi með innstæðutryggingarsjóðnum verið skuldbundnir til að ná ákveðinni niðurstöðu. Með því eru menn að reyna að finna nýtt orð yfir ríkisábyrgð eftir að sannast hafði að ekki væri til staðar nein eiginleg ríkisábyrgð. Þetta er í sjálfu sér aðferð sem við þekkjum úr umræðunni um Evrópusambandið að undanförnu. Grikkir eru til að mynda ekki að fara að lenda í greiðslufalli, heldur einhvers konar skuldaumbreytingu. Þannig leyfa menn sér að túlka hlutina frjálslega til að ná þeim markmiðum sem þeir telja mikilvæg hverju sinni.

Það er margt skondið í þessari niðurstöðu ESA, t.d. eru skýringar á grein 2.7 í svari Íslendinga bráðsmellnar. Þar er því haldið fram að Íslendingar hafi í raun brotið af sér vegna þess að menn hafi ekki getað tekið peningana sína út úr bankanum á sínum tíma en í öllum öðrum Evrópuríkjum hafa menn áfram getað tekið peningana sína út úr banka í miðri fjármálakrísunni. Það er ekki talið gilt að það hafi verið ómögulegt að halda bankanum opnum vegna þess að ári síðar, eða hvað það nú var, hafi menn haft fjármagn til að greiða út.

Þetta er einhvers konar hringrökstuðningur, að vegna þess að síðar hafi menn getað greitt út hafi þeir átt að geta greitt út samstundis. Það er röksemdafærsla sem gengur ekki upp enda voru innstæður á Icesave, ef ég man rétt, um 1.700 milljarðar en gjaldeyrisforði þjóðarinnar allrar 340 milljarðar. Þar af leiðandi var augljóst að það var ekki raunhæft að hægt væri að greiða þetta allt út á sínum tíma. Þetta eru að miklu leyti ný rök í málinu, þeir eru farnir að gera fyrst og fremst athugasemd við það að menn hafi ekki getað tekið peningana sína út úr bankanum og eru að reyna að færa vígstöðuna eins og þeir hafa gert áður þegar þeir hafa lent upp við vegg með fyrri rök.

Þetta er áhugavert líka í tengslum við umræðuna um ríkisskulda- og bankavandann í Evrópu þessa dagana og hlýtur að vekja spurningar um það hvort Bretar og Hollendingar vilji raunverulega fara með þetta mál fyrir dómstóla eða vilji hugsanlega leysa það á einhvern hátt í millitíðinni, sérstaklega með tilliti til nýs mats á þrotabúi Landsbankans, enda væntanlega óheppilegt fyrir ýmis ríki Evrópusambandsins að það liggi fyrir dómsniðurstaða um að innstæður í þeim fjölmörgu evrópsku bönkum sem eiga í efnahagslegum erfiðleikum um þessar mundir séu á ábyrgð viðkomandi ríkja.

Það er ástæða til að taka sérstaklega fram að að mínu mati hefur hæstv. ráðherra staðið sig vel við að fylgja þessu máli eftir að undanförnu. Sérstaklega hefur hann náð miklum og góðum árangri í að skapa pólitíska samstöðu um málið og fullt tilefni er til að bera lof á það. Jafnframt hefur hæstv. ráðherra ítrekað núna í framhaldi af þessari niðurstöðu ESA að hann muni áfram beita sér fyrir því að menn standi saman um málsvörn Íslands. Það er lofsvert líka og full ástæða til að taka undir mikilvægi þess.

Við eigum von á frekari skýringum á stöðu málsins í utanríkismálanefnd einhvern tímann á næstu vikum, en aðalatriðið er að það virðist áfram vera breið pólitísk samstaða um að verja hagsmuni Íslands í þessu máli.