139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

866. mál
[20:24]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil gera í stuttu máli grein fyrir breytingartillögum sem við í allsherjarnefnd gerum … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð fyrir ræðumann hér.)

… við tillögu til þingsályktunar um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

Breytingar sem samþykktar voru á fundi nefndarinnar í dag eru þannig að 1. mgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar, í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, sbr. einnig ályktun þingsins um rannsóknarskýrslu Alþingis frá 28. september 2010, að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd er leiti sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots sparisjóðanna á Íslandi.“

Breytingin sem við gerum á þessari málsgrein er til komin vegna þess að það komu fram ábendingar um að tillögugreinin eins og hún var í upprunalegri mynd sinni endurspeglaði ekki nægilega vel þingsályktun sem kennd hefur verið við 63:0 og var samþykkt hér þann 28. september á síðasta ári.

Þar segir í kaflanum „Eftirfarandi rannsóknir og úttektir fari fram á vegum Alþingis“, með leyfi forseta:

„Sjálfstæð og óháð rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi frá því að viðskipti með stofnfé voru gefin frjáls.“

Hér er verið að koma til móts við þessi sjónarmið þannig að það er vísað sérstaklega í þessa ályktun.

Þá er hluti 1. mgr. felldur inn í d-lið 2. mgr. þannig að hann orðist svo:

„Leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna, eftirlit og endurskoðun hjá sparisjóðunum, hverjir kunni [að] bera ábyrgð á því og hvernig niðurstöðum eftirlitsaðila var fylgt eftir.“

Þarna er sem sé verið að styrkja þennan d-lið 2. mgr. þannig að rannsókninni er ekki beint sérstaklega að pólitískri ábyrgð heldur fyrst og fremst stjórn og stjórnarmönnum í sparisjóðunum.

Í þriðja lagi er gerð eftirfarandi breytingartillaga:

„Í stað dagsetningarinnar „1. september 2012“ í g-lið 2. mgr. komi: 1. júní 2012.“

Við erum að þrengja þann tímaramma sem rannsóknarnefndin hefur til að ljúka rannsókn sinni en teljum þetta eiga að vera fullnægjandi tími. Komi í ljós að svo sé ekki er auðvitað nauðsynlegt að þá liggi fyrir tillaga frá rannsóknarnefndinni næsta vor eða beiðni til forsætisnefndar Alþingis.