139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

866. mál
[20:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún kom víða við, gat um það að þetta væru stofnanir sem væru mjög nálægt viðskiptavinum sínum og það er hárrétt, þeir sinntu mjög góðu starfi og höfðu mjög góða ímynd. Það er miður að þessi mikla og góða ímynd hafi beðið þennan hnekki og þessi starfsemi lagst af. Það var nefnilega ekki endilega þörf á að leggja starfsemina niður þó að eignarhaldið færi í gjaldþrot. Það mátti halda rekstrinum áfram og er svo sem gert víða.

Finnst hv. þingmanni ekki undarlegt að þetta eigið fé sparisjóðanna, þetta stofnfé sem margir töluðu um sem göfugt og félagslegt fé, hafi verið bundið í tveimur hlutabréfum að miklu leyti, hjá Existu og Kaupþingi? Og finnst hv. þingmanni ekki skrýtið að Fjármálaeftirlitið hafi ekki gert athugasemd við það að þetta göfuga fé hafi verið bundið í jafnáhættusömum eignum og hlutabréf eru sem varð til þess að þegar þeir lentu í vandræðum og þegar hlutafélögin bæði, Exista og Kaupþing, fóru á hausinn hrundu sparisjóðirnir eins og spilaborg á eftir?