139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

866. mál
[20:44]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að hafa langt mál um það þingmál sem við ræðum hér, rannsókn á orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Sem einn af flutningsmönnum málsins og nefndarmaður í allsherjarnefnd er mér bæði ljúft og skylt að lýsa yfir stuðningi við þetta mál. Ég tel eðlilegt að málefni sparisjóðanna séu rannsökuð eins og fram hefur komið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar að nauðsynlegt sé að gera.

Sparisjóðirnir hafa spilað gríðarlega mikilvægt og stórt hlutverk í viðskiptalífi okkar og fjármálastarfsemi en því miður náði yfirferð rannsóknarnefndar Alþingis ekki til þeirra, heldur einungis til viðskiptabankanna þriggja. Auðvitað eru margir sárir eftir fall sparisjóðanna um allt land og þess vegna er að mínu mati nauðsynlegt að ráðast í þessa rannsókn.

Nú er hins vegar svo komið, virðulegi forseti, að það eru farnar að tínast hérna inn fleiri og fleiri beiðnir um rannsóknir á hinu og þessu. Ég styð út af fyrir sig að farið verði í ýmsar þær rannsóknir sem talað hefur verið fyrir, eins og þá sem hér er til umfjöllunar, rannsókn á falli sparisjóðanna. Síðan hafa verið uppi ýmsar aðrar hugmyndir um að ráðist verði í rannsóknir á einkavæðingu bankanna, málefnum Íbúðalánasjóðs, Íraksmálinu og svo mætti lengi telja.

Það virðist vera einhver tregða hér til að fjalla um þá rannsóknarbeiðni sem auðvitað varðar langmestu þjóðarhagsmunina og það eru ákvarðanir, framganga og embættisfærslur íslenskra stjórnvalda, hæstv. ráðherra og embættismanna í tengslum við Icesave-málið. Það má hv. formaður allsherjarnefndar eiga að hann hefur lýst því hér yfir að hann hyggist afgreiða þá þingsályktunartillögu á þessu löggjafarþingi og ég vona að við það verði staðið. Þess vegna brýni ég hv. þm. Róbert Marshall í að róa að því öllum árum að standa við yfirlýsingar sínar um að afgreiða Icesave-rannsóknina eins og hann hefur áður sagt að hann ætli að gera á þessu löggjafarþingi. Ég bind miklar vonir við að svo verði, eins og allur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins. Við höfum lagt það þingmál hérna fram í tvígang en það hefur ekki hlotið afgreiðslu. Við mæltum fyrir breytingartillögu við þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar en þá var viðkvæðið að ekki væri tímabært að ráðast í slíka rannsókn fyrr en búið væri að ganga frá heildarlögum um rannsóknarnefndir. Það frumvarp er nú orðið að lögum og því er ekkert því til fyrirstöðu að ganga frá málinu. Ég tek því hv. þm. Róbert Marshall á orðinu og hvet hann til þeirra dáða að setja þetta mál á dagskrá (RM: Það stendur eins og stafur á bók.) og ljúka því. Það stendur eins og stafur á bók, segir hv. þingmaður. Ég fagna því vegna þess að ég hef haft það á tilfinningunni að sumir í þessum sal, aðrir en hv. þm. Róbert Marshall, séu reiðubúnir að ráðast í allar aðrar rannsóknir en þær sem lúta að Icesave.

Ég veit hvers vegna það er, það veit auðvitað þjóðin. Það vill þannig til að þessi ríkisstjórn hefur í tvígang verið gerð afturreka með verk sín í því máli. Það liggur fyrir gríðarlegt magn upplýsinga um framgöngu íslenskra stjórnvalda en sömuleiðis mjög sterkar vísbendingar og opinberar yfirlýsingar um að þinginu hafi ekki verið sagt satt og rétt frá á mikilvægum augnablikum Icesave-málsins. Enn fremur liggja fyrir opinberar yfirlýsingar sem ekki hefur verið mótmælt um að hæstv. fjármálaráðherra hafi undirritað Icesave-samningana án þess að hafa fyrir því meiri hluta í þinginu, vitandi vits um stöðuna.

Ég hvet því hv. þingmann til að standa við stóru orðin. Ég treysti því og trúi að þau muni standa eins og stafur á bók, eins og hann hefur hér sjálfur sagt, en að svo búnu lýk ég máli mínu.