139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:11]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við munum standa þétt saman, (Gripið fram í: Jesús minn almáttugur.) við munum standa þétt saman, sagði hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. (Gripið fram í: Já.) Hvar er samstaðan? (LRM: Hún er hér, með mér.) Formaðurinn stendur ein á báti, (Gripið fram í: Og ætli það.) á hriplekri áralausri kænu og ekki mundi það batna þótt hæstv. ráðherrar, sem hér sitja og gjamma eins og fallegir hlaðhvolpar, yrðu gerðir að tvíbytnu. Þá treysti ég nú betur á formann nefndarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hún reynir þó að standa sig í því sem hún er að gera og það er meira en hægt er að segja um hæstv. ráðherra.

Ég vil spyrja formann nefndarinnar: Er það boðlegt að leggja hér fram svo stórt mál sem skiptir svo miklu máli og hafa ekki betri samstöðu en þetta, að þrír af fjórum fylgdarsveinum formannsins eru með fyrirvara? Ég þori að fullyrða að þetta er einsdæmi í þingsögu lýðveldisins Íslands. [Frammíköll í þingsal.] Einsdæmi. [Kliður í þingsal.]