139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sem sá einlægi aðdáandi stjórnarandstöðunnar sem ég er, hef ég veitt sérstaka athygli ýmsu því sem fram hefur komið í málflutningi Framsóknarflokksins um sjávarútvegsmál á undanförnum mánuðum og ekki síst hv. þingmanni. Þar er margt athyglisvert sett fram og að sínu leyti koma þar fram ýmsar nýjar áherslur og hugsanir sem ég held að séu mikilvægt innlegg í umræðuna og ég þakka hv. þingmanni fyrir efnismikið innlegg við upphaf umræðunnar.

Á þeim forsendum skil ég afstöðu þingmanns að leggjast gegn samþykkt frumvarpsins í heild sinni en mig fýsir að vita hvort hann og aðrir þingmenn Framsóknarflokksins muni taka afstöðu til einstakra efnisgreina með eða á móti og þá sérstaklega til 2. gr. sem hann gerði nokkuð að umtalsefni í ræðu sinni. Mér heyrðist afstaða hans vera nokkuð jákvæð til þess prinsipps sem þar er á ferð og að með breytingum meiri hluta nefndarinnar, nú 1. minni hluta, hafi það ákvæði verið mildað og mátti að ýmsu leyti skilja orð hv. þingmanns sem svo að sú útfærsla væri viðunandi. Ég vildi kanna hjá hv. þingmanni hvort hann og flokksmenn hans mundu styðja þá grein eða leggjast gegn henni eða ekki taka afstöðu til hennar þegar hún kemur til afgreiðslu á morgun.