139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það segir kannski nokkra sögu um það hvernig þessi mál hafa verið að þróast að þegar ég gekk frá nefndaráliti þessu fyrr í þessari viku var letrað á þau blöð: Frá 2. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. En glöggir hlustendur hafa væntanlega tekið eftir því að virðulegur forseti kynnti mig til leiks með þeim orðum að ég væri að mæla fyrir 3. minnihlutaáliti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar einfaldlega vegna þess að fyrsta álitið sem lagt var fram var líklega meirihlutaálit hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, 1. minnihlutaálit var síðan álit það sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson var að mæla fyrir og síðan kom minnihlutaálit okkar hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Þá gerðist það að enn þurfti að kalla saman hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að fara yfir málin og niðurstaðan varð sú, eins og hér hefur verið bent á, að meiri hlutinn náði ekki saman. Einungis fjórir af fimm fulltrúum meiri hlutans í nefndinni treystu sér til að skrifa upp á nefndarálitið og þrír af þessum fjórum gerðu það með fyrirvara. Einungis framsögumaður og formaður nefndarinnar treysti sér til að standa fyrirvaralaust að því nefndaráliti.

Þetta segir heilmikla sögu um það hvernig þessi mál hafa öll verið að þróast og segir mikla sögu um það hvernig málin hafa verið undirbúin. Þetta er sérkennilegt í ljósi þess að við höfum heyrt það á undanförnum vikum og mánuðum að hafðar hafa verið uppi miklar heitstrengingar úr þessum ræðustól, ákall um breytt og bætt vinnubrögð og alveg sérstaklega varðandi undirbúning þingmála. Ég hefði haldið að við hefðum getað gengið út frá því sem vísu að ráðherrar, sem við skulum ekki gleyma að sækja umboð sitt til þingsins, mundu reyna að gegna því kalli. Framkvæmdarvaldið ber alveg sérstaka ábyrgð. Frá framkvæmdarvaldinu koma langflest þau þingmál sem fá brautargengi frá Alþingi. Við vitum líka hvernig svona mál eru meðhöndluð áður en þau koma til Alþingis. Þingmenn stjórnarflokkanna þurfa að fara yfir málin, taka afstöðu til þeirra og heita stuðningi við þau í meginatriðum áður en þau koma hingað inn. Þetta gera allar ríkisstjórnir til að tryggja að öruggur meiri hluti sé fyrir þeim málum sem hingað eru borin. Það þarf líka að liggja fyrir að þetta sé í samræmi við þá stjórnarstefnu sem viðkomandi ríkisstjórn reisir vald sitt á. Þess vegna er það vald sem stjórnarliðar hafa, almennir þingmenn í þingflokkunum, gríðarlega mikið og ábyrgð þeirra sömuleiðis.

Auðvitað er það svo að menn greinir á um pólitíska stefnumótun í frumvörpum sem hingað koma en um eitt hljótum við þingmenn þó alla vega að vera sammála, það eru lágmarkskröfur að þingmál séu vandlega undirbúin, þau séu rökstudd og í samræmi við sjálfa stjórnarskrána. Og það eru þá ábyrgðarmenn þessa, sem eru þingmenn stjórnarliðsins hverju sinni, sem eru þeir einu úr hópi okkar sem sitjum á þingi sem hafa möguleika á því að sjá þingmálin áður en þau eru lögð fram í þinginu. Í sjálfu sér hefði ekki verið ástæða til að fara nokkrum orðum um þetta þegar við erum að ræða frumvarp til laga um stjórn fiskveiða með síðari breytingum en tilefnið er auðvitað svo alvarlegt og það er svo gróflega dapurlegt vegna þess að við erum að ræða svo mikilvæga löggjöf. Það hafa komið fram frá fleirum en einum ábendingar um að frumvarpið kunni að fara í bága við stjórnarskrána. Hér er ég ekki bara að ræða um Helga Áss Grétarsson, sem hefur stundum verið kallaður til vitnis í umræðunni, gleymum því ekki að sjálf fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins lét í ljósi miklar efasemdir einmitt um þetta atriði þegar málið var á sínum tíma borið inn í þingið. Þó að minni mitt sé brigðult hygg ég að það sé rétt hjá mér, að á mínum 20 ára ferli man ég ekki eftir að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins hafi lagt svo sérstaka lykkju á leið sína, skrifað lærða stjórnsýsluritgerð um frumvarp til að reyna að benda á að það væri svo illa úr garði gert sem raun ber vitni.

Ekki síst af þessum ástæðum gagnrýnum við í 2. minni hluta, sem nú er orðinn 3. minni hluti, harðlega að fyrirliggjandi frumvarp virðist eiga að fara hraðferð í gegnum þingið án þess að tóm gefist til raunverulega málefnalegrar umræðu og faglegrar vinnu í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Vissulega er það þannig að síðasta sólarhringinn höfum við setið slímusetur yfir þessu máli til að reyna að komast til botns í því. Við höfum átt góðan fund í dag með hagsmunaaðilum úr sjávarútvegi sem hafa sérstaklega verið að fara yfir 2. gr. frumvarpsins. Það hefur vissulega verið til bóta. En það er til marks um hvernig málið er þó úr garði gert af hálfu ríkisstjórnarinnar að eftir að það er komið inn í þingið til 2. umr. þarf að kalla það til baka af hálfu stjórnarmeirihlutans, nefndarálitið og breytingartillögurnar, og það er á þeim tímapunkti sem við höfum tækifæri til að ræða þessi mál við þá hagsmunaaðila sem láta sig þetta atriði svo mjög varða.

Það er líka sérstaklega athyglisvert að þessi mál, undirbúningur þingmála, voru einn af hornsteinunum í því sem hin margumrædda rannsóknarnefnd Alþingis fjallaði um í skýrslu sinni. Alþingi ályktaði síðan alveg sérstaklega um vandaða meðferð þingmála þar sem meðal annars var vakin var athygli á því að upplýst málefnaleg umræða um þingmál væri grundvöllur vandaðrar og faglegrar lagasetningar en á þetta hefur mjög skort við undirbúning þessa máls. Það er þeim mun alvarlegra sem við erum að ræða hér um breytingar á lagaumhverfi sjálfrar undirstöðuatvinnugreinar okkar. Við sem erum eldri en tvævetur í umræðunni um fiskveiðipólitíkina þekkjum vel að minnsta breyting á löggjöfinni um fiskveiðistjórnarmálin getur haft ófyrirséðar afleiðingar sem við getum engan veginn séð fyrir. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að þessi mál séu vel vönduð.

Það frumvarp sem er hér til umfjöllunar á í sjálfu sér langan og mikinn aðdraganda. Þetta er fyrsta afurð ríkisstjórnarinnar eftir að fjölskipuð nefnd þingflokka og allra hagsmunaaðila skilaði ítarlegri skýrslu með afdráttarlausum tillögum á þessu mikilvæga málasviði í september síðastliðnum. Síðan liðu níu mánuðir þangað til þetta frumvarp kom loksins fram. Það ber með sér að eftirtekjan af því mikla strögli sem varð um þetta mál innan ríkisstjórnarflokkanna og milli þeirra er í besta falli skothelt klúður. Þetta er illa undirbúið mál að hér um bil öllu leyti. Það felur í sér sjö efnisgreinar og það eru ákvæði sem eru mjög stefnumótandi um þetta frumvarp í bráðabirgðaákvæðum í þremur liðum.

Það er dæmalaust að ekki skuli hafa verið gerð hin minnsta tilraun til að undirbyggja málið efnislega. Rökstuðningurinn er ótrúlega rýr og það má hvorki finna pút né plagg um hverjar afleiðingar frumvarpsins verða. Síðan er mjög erfitt að átta sig á meginmarkmiðum þess eins og Alþýðusamband Íslands bendir á. Sá boðskapur sem fylgir er þannig að það er eins og aldrei hafi staðið til að menn kynntu sér afleiðingar fyrr en frumvarpið sjálft yrði að lögum. Skipaður var hópur hæfra hagfræðinga til að skoða afleiðingar frumvarpsins og leggja á það mat um svipað leyti og ríkisstjórnarflokkarnir heimiluðu framlagningu frumvarpsins. Það var einhvern tímann í maí. Okkur var sagt að það mundi liggja fyrir núna 9. júní. Það er ekki enn þá komið, væntanlega vegna þess að þetta hefur reynst meiri vinna en menn ætluðu í upphafi. Það er betra að málið komi frá þessum hagfræðingahópi vel undirbúið og vel ígrundað þó að það kosti einhverja daga í viðbót, ég er ekki að gagnrýna það, ég er einfaldlega að vekja athygli á því að það er verið að vinna þessa hluti með öfugum klónum. Þetta er auðvitað í algjörri andstöðu við það mikla ákall sem komið hefur úr ræðustóli Alþingis, meðal annars síðustu dagana þegar við höfum einmitt verið að ræða það mál sem ég hef gert að umtalsefni hér.

Menn hafa síðan sagt sem svo, og það hefur meðal annars komið fram hjá ýmsum hv. stjórnarliðum, að það hafi staðið þessu máli fyrir þrifum að stjórnarandstaðan hafi kosið að ræða það í þrjá daga. Má ég í fyrsta lagi benda á að frumvarpið kom fram tveimur mánuðum eftir að lögbundnum fresti til að leggja fram þingmál hér á Alþingi lauk. Það þurfti sérstök afbrigði til að heimila að málið kæmist á dagskrá og við kusum síðan að ræða það í þrjá daga. Við söknuðum þess að vísu mjög að hv. stjórnarliðar, með fáeinum undantekningum, kusu að ræða þetta mál helst ekki við okkur efnislega. Þeir voru sumir hverjir dálítið ötulir við andsvör sem betur fer, en andsvörin voru í flestum tilvikum ein mínúta og gáfu því ekki tilefni til almennilegra skoðanaskipta.

Vinnubrögðin í nefndinni sjálfri eru líka með miklum eindæmum. Það vantaði ekki að nefndin fundaði stíft í fáeina daga. Við kölluðum marga gesti fyrir nefndina og umsagna var leitað. Hvernig voru umsagnirnar undirbúnar? Umsagnaraðilar fengu einn sólarhring í ýmsum tilvikum til að undirbúa umsagnir sínar og það dæmalausa virðingarleysi var sýnt að umsagnarbeiðnir bárust þessum aðilum á föstudagskvöldi fyrir sjómannadagshelgina. Gleymum því ekki að umsagnaraðilarnir sem hér um ræðir eru allir tengdir sjávarútvegi og fiskveiðum. Jafnvel samtök sjómanna höfðu varla næði til að halda upp á sjómannadaginn vegna þess að þau voru að undirbúa umsögn sína. Þetta er ekki líðandi og er okkur öllum til skammar, jafnvel okkur hinum sem berum ekki ábyrgð á þessu vinnulagi. Það er blettur á starfi þingsins að þetta skuli hafa verið gert þannig.

Síðan gerðist það eins og við vitum að málið var rifið fyrirvaralaust úr þingnefnd. Þar hafði þá engin efnisleg umræða farið fram og við fengum bara á okkar borð nefndarálit með breytingartillögum sem fyrir lá á þeirri stundu að yrði ekki breytt. Eins og ég nefndi áðan var málið síðan kallað aftur til þingnefndar. Nefndarálit var skrifað að nýju og breytingartillögur lagðar fram. Áður höfðu breytingartillögur á nefndaráliti hinu fyrra verið kallaðar aftur.

Það er alveg ljóst af þeirri breytingartillögu sem við sjáum hér í þingskjölum frá 1. minni hluta að hann hefur neyðst til að bregðast við þeirri harkalegu gagnrýni sem sett hefur verið fram á frumvarpið. Það voru einir 15 aðilar sem höfðu sent inn umsagnir um málið. Síðan bættust við þessir nefndarfundir sem ég gerði grein fyrir áðan þar sem aðilar komu að máli við okkur og ræddu hlutina ítarlega. Það er athyglisvert að ekki einn einasti umsagnaraðili sem lagði fram umsögn um þetta mál mælti frumvarpinu bót. Hv. formaður nefndarinnar nefndi að vísu Landssamband smábátaeigenda, en ég vek athygli á því að ein þungamiðjan í frumvarpinu er einmitt byggðakvótarnir og Landssamband smábátaeigenda finnur mjög að þeirri útfærslu sem þar er, hvetur til þess að fallið verði frá byggðakvótunum í þeirri mynd sem þeir eru núna og vill að tekin verði upp einhvers konar byggðaívilnun sem er að minnsta kosti einnar messu virði að við ræðum. Það er ekki það sem er viðfangsefni þessa frumvarps — sú leið er farin að auka í pottana til að reyna að bregðast við í framhaldi af stefnumótun ríkisstjórnarflokkanna.

Það er athyglisvert í þessu sambandi að öll samtök sjómanna, Samtök atvinnulífsins, útvegsmenn, Samtök fiskvinnslunnar og ASÍ gera einfaldlega þá kröfu að málið verði lagt til hliðar. Viðbrögð meiri hluta, sem nú er orðinn 1. minni hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, voru þau að fara að skattyrðast í nefndaráliti sínu við þessa umsagnaraðila. Það varð til þess að Landssamband smábátaeigenda eða fulltrúar þeirra, í nafni samtakanna, brugðust við á heimasíðu landssambandsins þar sem því var vísað á bug hvernig tekið var á þessum málum af hálfu meiri hluta núverandi minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.

Alþýðusamband Íslands dregur saman ákveðin áhersluatriði sem koma fram hjá mjög mörgum og mér finnst ástæða til að vitna í það, með leyfi virðulegs forseta, lokaorðin í nefndaráliti þeirra:

„Almennt má segja að þrátt fyrir að frumvarpið geri ráð fyrir margháttuðum breytingum á stjórn fiskveiða er erfitt að átta sig á meginmarkmiðum frumvarpsins. Við skoðun á frumvarpinu kemur í ljós að það mun:

Veikja rekstrargrundvöll sjávarútvegsins. Slíkt mun leiða til þess að gengi krónunnar verði veikara en ella og lífskjörin verða lakari.

Veikja stöðu þeirra sem hafa aðalstarf sitt af fiskveiðum og fiskvinnslu.

Ýta undir leigubrask og skammtímahugsun í stað þess að setja því skorður.

Auka á pólitískar valdheimildir ráðherra án þess að færð séu rök fyrir því að það fyrirkomulag sé heppilegra en skýrar og gagnsæjar reglur.

Leggja til fyrirkomulag á ráðstöfun veiðigjalds til sjávarbyggða sem orkar tvímælis og ýtir undir óréttlæti og mismunun.

ASÍ telur mikilvægt að vandað sé til breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu. ASÍ getur ekki mælt með samþykkt frumvarpsins en leggur til þess í stað að sumarið verði nýtt til að vinna að nauðsynlegum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu, víðtæku samráði þar sem fulltrúar launafólks eigi fulla aðild og áhersla verði lögð á að skapa sem besta og breiðasta sátt um niðurstöðuna.“

Ég vek athygli á efnisbreytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu í meðförum nefndarinnar. Þar er svo sem af nógu að taka. Ég ætla að tæpa á einhverjum atriðum. Ég tek dæmi um efnisgrein í 1. gr. frumvarpsins sem lýtur að hugmyndum um að búa til sérstakan flokk báta, þrjú tonn og minni. Það verður að segjast eins og er að þetta ákvæði varð eiginlega aðhlátursefni umsagnaraðila sem komu á fund nefndarinnar og því ekki að undra að það mætti sínum skapadægrum í nefndinni. Þess utan var lagt til, í a-lið 1. gr. frumvarpsins, að ráðherra fái framselt löggjafarvald sem kann hugsanlega að stangast á við atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Ráðherra eru þar ekki sett nein efnisleg viðmið og engar leiðbeiningar er að finna í athugasemd við greinina.

Ég nefndi líka áðan athugasemdir fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og þarf í sjálfu sér ekkert að orðlengja það. Ég er búinn að gera grein fyrir því út á hvað það gekk. Það blasti við að engin þingnefnd, skipuð þingmönnum sem höfðu á sínum fyrsta degi sem þingmenn undirritað stjórnarskrána og gefið fyrirheit um að virða hana í hvívetna, gat afgreitt frá sér frumvarpsgrein sem fullkominn vafi var á að væri í samræmi við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Þetta á við um 3. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að sveitarstjórnir úthluti byggðakvóta. Sveitarstjórnirnar áttu reyndar að fá nokkur viðmið um þessa úthlutun, en þau voru mjög matskennd. Helgi Áss Grétarsson, sem stundum hefur verið nefndur til sögunnar, benti á að þetta fyrirkomulag kynni að vekja upp spurningar um vanhæfni sveitarstjórnarmanna og fleiri lagaleg álitaefni (Gripið fram í: ... í Icesave) — hann var líka sérlegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu, þannig að hér er ekki um mann að ræða sem menn afgreiða svo léttilega út af borðinu, enda er eðlilegt að menn fjalli þá efnislega um gagnrýni sérfræðingsins ef þeir hafa eitthvað við hana að athuga.

En viðbrögð nefndarinnar, það má út af fyrir sig segja henni það til hróss, voru þau að hverfa frá þessu atriði og því má segja sem svo að tekin hafi verið um það pólitísk ákvörðun að hætta við að brjóta stjórnarskrána.

Varðandi strandveiðarnar almennt sakna ég þess mjög að ekki er gerð tilraun til að takast á við þær miklu deilur sem hafa skapast um skiptingu veiðisvæða, úthlutun aflamarksins inn á þau. Í þeim efnum hefur hæstv. ráðherra altækt vald sem Alþingi lét af hendi með lagabreytingu fyrir skemmstu. Í stað þess að takast á við það bætir ríkisstjórnin gráu ofan á svart og meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar gerir ekki athugasemdir við það og felur ráðherra óskilgreint vald, ekki bara til að skipta veiðisvæðunum niður með þeim hætti sem hann kýs heldur veiðinni á tímabil að eigin vild. Hægt var að lokka það upp úr hæstv. ráðherra að hugmynd hans væri að stytta veiðitímabilin, en það var ekkert um það í frumvarpinu þegar það var lagt fram.

Ég tók eftir því við 1. umr. þessa máls, þegar við höfðum uppi gagnrýni um þetta, nokkur okkar, að þá sögðu þingmenn stjórnarliðsins að við þessu yrði brugðist og þetta yrði tekið til sérstakrar meðhöndlunar í nefndinni. Ég sakna þess hins vegar að það var ekki gert nægjanlega vel en þar sem ýmsar efnisgreinar frumvarpsins er ekki lengur að finna í breytingartillögum meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefur að einhverju leyti verið komið til móts við gagnrýnina, en það má segja að það hafi verið aukageta, vegna þess að það fylgdu með, í þeim efnisgreinum sem verið er að kasta út úr frumvarpinu, ýmis ákvæði sem lutu að þessu altæka valdi ráðherrans.

Þá var í umræðunni sagt af hálfu stjórnarliða að ástæða væri til að skoða hverjir hafi nýtt sér heimildir útgerða til strandveiðibáta. Fram hafa komið ýmsar vísbendingar í þessa átt. Ég ætla svo sem ekkert að fullyrða í þeim efnum, en það er engin ástæða til annars en vekja athygli á því.

Einn meginþáttur frumvarpsins lýtur að hækkun veiðigjaldsins um 70%. Forsenda þeirrar miklu hækkunar er að framleiðsla í sjávarútvegi sé með ágætum. Það er rétt og þar ræður ekki síst hagræðingin í sjávarútvegi sem hefur skilað sér með betri rekstrarárangri en áður. Það er því mun sérkennilegra að með frumvarpinu er dregið úr hagræðingu og skilvirkni, eins og Alþýðusamband Íslands bendir á, og þar með er grafið undan möguleikum sjávarútvegsins til að skila eiganda auðlindarinnar, ríkinu, þjóðinni, þeim arði sem ella væri hægt. Önnur ástæða góðrar rekstrarafkomu er lágt gengi íslensku krónunnar. Það blasir þess vegna við að höfundar frumvarpsins reiða sig á að gengi krónunnar verði lágt um lengri framtíð sem er mjög athyglisverð framtíðarsýn, en er svo sem í samræmi við spá flestra spáaðila sem hafa verið að reyna að leggja mat á þróun gengisins upp á síðkastið.

Það er alveg ljóst, hvað sem menn segja svo sem um möguleika greinarinnar í heild til að takast á við hærra veiðigjald, að hækkun gjaldsins mun taka í reksturinn hjá skuldugustu útgerðunum, sem vel að merkja eru oftast þær nýrri í atvinnugreininni, hinir dæmigerðu nýliðar sem oft er talað um með mikilli velvild hér á Alþingi. Með sterkara gengi verður framleiðni minni og getan til að standa undir skuldum þeim mun verri. Þess vegna má ætla að þetta ákvæði muni leiða til samþjöppunar í sjávarútvegi, fækkun einyrkja og verri aðgangs nýliða í atvinnugreininni. Það er í hróplegu ósamræmi við yfirlýstan tilgang frumvarpsins.

Í endurskoðunarnefndinni sem oft hefur verið kölluð til vitnis í þessari umræðu, og er kölluð sáttanefnd með réttu, sammæltust hér um bil allir um að fallast á að gert yrði ráð fyrir að afmarkaður hluti veiðiréttarins, kvótans, yrði tekinn úr hefðbundnu aflahlutdeildar- og aflamarkskerfi. Þeim hluta yrði síðan varið til byggðalegra, félagslegra og atvinnulegra úrræða. En það var öllum ljóst sem voru að fjalla um þetta í nefndinni að á þessu yrði að vera mikið hóf. Hugmynd okkar var sú að þetta yrði ákveðið hlutfall af aflakvótanum og mundi síðan hækka og lækka eftir því sem aflaheimildir breyttust á ári hverju. Þar með væri nokkuð ljóst að þær heimildir sem verið væri að veita mundu ekki ganga á veiðiréttinn þegar afli yrði til dæmis skorinn niður, heldur fylgja því þá eftir og þegar hann ykist yrði á samsvarandi hátt meira rými til svona byggðakvóta.

Við skulum ekki gleyma einu. Fiskveiðiauðlindin er mjög takmörkuð og afkastageta fiskiskipastólsins og fiskvinnslunnar er jafnvel, þrátt fyrir þá hagræðingu sem orðið hefur, umfram áætlaða afrakstursgetu fiskstofna. Um það bil 90% kvótans, veiðiréttarins, eru í höndum útgerða sem starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta hefur komið fram í svari hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn minni þar að lútandi. Þess vegna er það þannig að tilfærslur af þessu tagi, hversu göfugan tilgang sem þær annars hafa, verða í meginatriðum á milli útgerðarstaða á landsbyggðinni. Þá koma einnig til skerðingar á aflamarki minni og stærri skipa sem oft og tíðum eru burðarásar í hráefnisöflun fyrir fiskvinnslu á landsbyggðinni. Hér er ekki bara um að ræða það sem menn hafa uppnefnt stórútgerðir, hér er bara um að ræða hinar venjulegu útgerðir, gjarnan fjölskylduútgerðir, einstaklingsútgerðir, sem eru starfandi um land allt.

Þó að ég geti sagt að það megi réttlæta að taka hluta veiðiréttarins, takmarkaðan þó, til sértækra aðgerða í tilteknum byggðarlögum, þá mun umtalsverð aukning á þessu sviði koma illa við ýmsar útgerðir, ekki síst þær smærri og kvótaminni. Það mun sýna sig, í þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, og er verið að boða í frumvarpinu, að þau verða áhrifin.

Að mínu mati er skynsamlegast að leita annarra leiða til að byggja upp nýtt atvinnulíf á landsbyggðinni. Ekki með því að seilast eftir stöðugt meiri aflaheimildum í byggðalegum tilgangi sem að lokum veikir sjávarútveginn og rýrir kjör starfsfólks hans í heild, heldur með því að nýta þann ávinning sem þjóðarbúið í heild hefur sannanlega haft af hagræðingunni í sjávarútveginum; og ríkissjóður hefur vitaskuld sérstaklega getað notað til að treysta innviði byggða og styðja fjölþætta atvinnuuppbyggingu um landið.

Við skulum horfast í augu við staðreyndir, meðal annars þessar: Hagræðingunni, tækniframförunum, afköstunum og öllum þeim breytingum sem orðið hafa í sjávarútveginum hefur fylgt að sjávarútvegurinn hefur veikst í ýmsum byggðarlögum. Við þekkjum allt of mörg dæmi um það. Úr þessu verður hins vegar ekki endalaust bætt með því að veikja sjávarútveginn í heild nema við tökum um það ákvörðun að breyta aflakvótakerfinu í einn allsherjarbyggðakvóta sem hefur þær afleiðingar að lífskjör í sjávarútvegi verða lakari. Á meðan sjávarútvegurinn er starfandi á landsbyggðinni, eins og hann er að mestu leyti í dag, mun það hafa þau áhrif að lífskjör á landsbyggðinni verða ekki samkeppnisfær við það sem gerist í mörgum öðrum löndum.

Mér er þetta mál mjög hugleikið. Ég er búinn að hugsa þessi mál mjög oft og ég hef séð það, til dæmis í löndunum í kringum okkur, að þar sem menn hafa verið að reyna að skipuleggja sjávarútveginn sem einhvers konar byggðalegt tæki, vegna þess að hann hefur byggðalega þýðingu, lenda menn í ógöngum. Menn lokast inni og afleiðingin verður sú að það verður ekki eftirsóknarvert að starfa í sjávarútvegi og þar með ekki eftirsóknarvert að búa á þeim stöðum þar sem sjávarútvegurinn er. Við vitum hvernig þetta er í dag. Sjávarútvegurinn hefur ekki nægjanlegt aðdráttarafl einn og sér sem atvinnugrein á landsbyggðinni og kallað er eftir aukinni fjölbreytni og nýjum atvinnugreinum. Við höfum oft og tíðum ekki verið samkeppnisfær á þessu sviði á landsbyggðinni og því hlýtur nú að gefast mikið tækifæri til að hugsa þessi mál upp á nýtt. Sjávarútvegurinn hefur í sjálfu sér verið að skapa aukin verðmæti fyrir þjóðarbúið, hefur verið að búa til auknar tekjur til ríkissjóðs. Afkoman er eins og hún hefur verið á undanförnum árum sem betur fer. Þarna eru því nýir möguleikar fyrir okkur til að hugsa þessi mál upp á nýtt.

Fyrst og fremst verður tekist á um þessi mál með því að nýta þau færi sem aukinn heildarávinningur af skynsamlegri og hagkvæmri fiskveiðistjórn gefur til að bregðast við þeirri vá sem blasir við í byggðarlögum. Ég tek fram að ég er ekki að tala gegn því að þessi byggðarlegu úrræði séu til staðar innan fiskveiðistjórnarkerfisins. Það verður einfaldlega að vera á því hóf til að við eyðileggjum ekki sjávarútveginn og við verðum að hafa möguleika til að bregðast við þegar sérstakar aðstæður koma upp í einstaka byggðarlögum. En stóra málið er að reyna að hugsa þessi mál upp á nýtt og reyna að kasta inn í umræðuna einhverjum nýjum hugmyndum til að bregðast við.

Það er mikill löstur á frumvarpinu að í því er hvergi að finna neina heildarsýn. Það einkennist þess í stað af skammtímahugsun og fullkomnu skilningsleysi á sjávarútveginum sem framsækinni hátækniatvinnugrein sem keppir á harðsóttum alþjóðlegum mörkuðum og hér innan lands við aðrar atvinnugreinar um gott starfsfólk og nauðsynlega fjárhagslega fyrirgreiðslu. Mér hefur einfaldlega fundist skorta, í þeim frumvörpum sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram, bæði þessu frumvarpi og fyrri frumvörpum, þá grundvallarhugsun að sjávarútvegurinn sé atvinnugrein sem þurfi að lúta nokkurn veginn svipuðum lögmálum og aðrar atvinnugreinar.

Það er allt í lagi að hafa rómantíska sýn á sjávarútveginn. Gamall góður vinur minn sagði hins vegar að vildu menn innleiða rómantíkina inn í sjávarútveginn væri miklu betra að gera það með því að fá sér rauðvín og drekka það við kertaljós, en ekki að breyta sjávarútvegskerfinu í þessum tilgangi algjörlega og hverfa frá því sem hlýtur að vera meginmarkmiðið með sjávarútveginum, að hafa í því innbyggðan hagrænan hvata til að gera sem best.

Frumvarpið er að mínu mati til óþurftar fyrir íslenskan sjávarútveg. Það er sett fram í fullkomnu ósætti við alla þá sem við eiga að búa, jafnt launþega sem atvinnurekendur, sjómenn sem landverkafólk. Það er því hvorki líklegt til að stuðla að þeirri sátt í mikilvægu máli sem kallað hefur verið eftir né til þess að hagur greinarinnar batni eða að hún bæti lífskjör í landinu. Hvernig sem menn horfa á málið verður aldrei gerð sátt um sjávarútveginn sem byggist á því að gera hlutina í fullkomnu ósætti við sjávarútveginn í heild eins og þetta frumvarp er greinilega til marks um og ég tala nú ekki um það stærra frumvarp sem við ræddum hér fyrir fáeinum dögum.

Annar minni hluti, sem nú er orðinn sá 3., áréttar að fyrirliggjandi frumvarp er óvandað. Tillögur þess eru ófullburða og kunna að brjóta gegn stjórnarskrá og athugasemdum og skýringum við það er mjög ábótavant og ákvæði þess ófullburða. Með vísan til alls þessa og framangreindra athugasemda leggur 3. minni hluti því til að málið nái ekki fram að ganga.

Undir nefndarálitið, sem ég hef gert að umtalsefni, skrifa auk mín hv. þm. Jón Gunnarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis.