139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Þannig að það fari ekkert á milli mála í þessu andsvari er ég þeirrar skoðunar að það sé vel réttlætanlegt að taka hóflegan hluta veiðiréttarins og deila honum út á byggðalegum forsendum. Það kann að vera nauðsynlegt fyrir okkur að hafa einmitt slík úrræði. En það er hins vegar mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að sjávarútvegurinn er atvinnugrein landsbyggðarinnar, fer að langmestu leyti þar fram. Eftir því sem við seilumst lengra inn í aflamarkið sjálft eða aflahlutdeildirnar sjálfar til að deila þeim út þeim mun meira gerum við einfaldlega af því að færa þá aflaheimildir milli byggða. Þannig að við getum sagt að að lokum kunni niðurstaðan að verða núll fyrir landsbyggðina í heild.

Það sem ég var að vísa til er það að sjávarútvegurinn hefur verið að hagræða mjög mikið. Því hefur hins vegar fylgt kostnaður fyrir tilteknar byggðir. Það er líka þannig að landsbyggðin hér á landi, eins og víða annars staðar, á í mörgum tilvikum undir högg að sækja. Sjávarútvegurinn er að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið í heild. Ég hygg að það sé óumdeilt. Þegar hann er síðan talinn í stakk búinn, að mati stjórnarmeirihlutans, til að greiða mun hærra veiðigjald en áður, kannski upp á 5 milljarða kr. miðað við rekstrarforsendur á síðasta ári, þá er að mínu mati orðið tækifæri til að nýta þá fjármuni — ekki að breyta byggðakvótanum beinlínis í peninga heldur að nýta þá fjármuni til að reyna að byggja undir nýtt atvinnulíf á landsbyggðinni og bæta innviði af mörgu tagi sem þarf að gera. Það er þessi hugsun sem ég held að sé svo mikilvægt að við reynum að velta fyrir okkur. Það vekur athygli mína, og vakti athygli mína í starfi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, að Samtök atvinnulífsins, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Alþýðusamband (Forseti hringir.) Íslands töluðu mjög á þessum nótum.