139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Skil ég þá hv. þingmann rétt í því að sá byggðakvóti sem þegar er þjóni ágætlega þeim markmiðum en rétt væri að horfa fremur til annarra leiða við að efla frekar byggðirnar en auka við þann kvóta sem nú er eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu?

Í öðru lagi vildi ég spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann bendir réttilega á að hér er verið að taka heimildir frá sumum og það er verið að hækka veiðigjald hjá öllum og hann telur að þessu ætti að fresta: Er ekki hv. þingmaður mér sammála um það að sjaldan á síðari tímum hafi verið betra tækifæri en einmitt núna til að taka slíkar íþyngjandi ákvarðanir? Sem betur er afkoma með eindæmum góð í greininni og sem betur fer eru heimildir, bæði í uppsjávarfiski og í bolfiski, að aukast á þessu ári. Það sem verið er að taka af kvótanum í þessu máli er verið að taka af aukningu. Við getum verið fullviss um að á næsta fiskveiðiári hafa aðilar meira til ráðstöfunar en þeir hafa á þessu ári í flestum tilfellum og ætti þess vegna ekki að þurfa að hafa svo miklar áhyggjur af neikvæðum áhrifum á reksturinn þegar breytingarnar eru gerðar við þessi hagfelldu ytri skilyrði.