139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er þeirrar skoðunar að það magn byggðakvóta sem við höfðum deilt út áður en hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók til við að auka þessa potta væri nokkurn veginn sú stærðargráða sem skynsamlegt væri að hafa. Það væri líka skynsamlegt fyrir okkur að skoða það með hvaða hætti nákvæmlega við vildum nýta þessar heimildir. Ég er ekki í nokkrum vafa um að skynsamlegast er að nota þessar heimildir, sem eru talsverðar, til þess að bregðast við í þeim einstöku byggðarlögum sem verða fyrir sérstakri vá. Við sjáum að oft á tíðum höfum við staðið nokkuð berskjölduð þegar slík vá brestur á, til dæmis þegar aflaveiðiréttur fer úr viðkomandi byggðarlagi. Og ég held að við þurfum að hugsa það hvort við getum ekki með einhverjum hætti frekar reynt að beina byggðakvótanum inn í þessa átt. Þess vegna tel ég að það hafi verið röng ákvörðun af hálfu hæstv. ráðherra á sínum tíma að auka byggðakvótann og sé enn þá verra núna þegar enn stendur til að auka hann.

Veiðigjaldið er að mínu mati nokkuð skynsamlega uppbyggt. Það er reiknað sem hlutfall af framlegð, EBITDA. Menn hafa talað um að þetta sé málamyndagjald en það er ekki rétt. Núna er það hér um bil 10% af EBITDA, framleiðni. Það er nú bara allnokkuð, sérstaklega fyrir þá sem eru með skuldugustu fyrirtækin. Það kann að vera að við þessar aðstæður sé hægt að reikna það út að atvinnugreinin í heild þoli vel hærra veiðigjald, en ég vil hins vegar benda á að það er líka mjög mikilvægt fyrir okkur að gæta þess að það verði ekki svo íþyngjandi að við fækkum þeim sem starfa í útgerðinni allt of mikið. Og gleymum því ekki að gamla hugmyndafræðin á bak við veiðigjaldið fól það einmitt í sér að hækka það þannig að það yrði til þess að þeir sem sýndu verri afkomu hyrfu út úr greininni og skapaði þannig rými fyrir þá sem sýndu betri afkomu.