139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[09:48]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Síðastliðinn sunnudag var sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur. Ég var stödd í Vestmannaeyjum í sól og blíðu og það ríkir alltaf sérstakur andi á sjómannadaginn fyrir okkur í sjávarbyggðunum. Menn eru glaðir og stoltir af árinu. Það er gleði yfir því að allir hafi komið heilir heim en þennan sunnudag var eitthvað undirliggjandi. Það voru óttinn og óvissan og óöryggið sem hafa aldrei verið meira í kringum greinina en nú. Þessi svokallaða sáttanefnd lagði af stað inn í veturinn með ákveðinn ramma um hvernig hægt væri að nálgast hlutina og hvernig hægt væri að gera þá til þess að ná sæmilegri sátt. Það hefur verið yfirlýst markmið þessarar ríkisstjórnar að ná sæmilegri sátt um sjávarútveginn.

Ég hef ekki enn þá getað fundið neitt sem segir að það muni takast, að þetta sé að koma, að þetta sé akkúrat sú vegferð sem lagt var í og það hafa ekki heldur þeir stjórnarliðar sem komið hafa að þessu máli og framlagningu þess í þinginu og á kynningum. Þeir eru ekki sáttir. Það á að berjast áfram. Það á að breyta og gera eitthvað og það skiptir engu máli hvað kemur út úr einhverjum hagfræðilegum úttektum, þetta skal vera svona af því að það er mín skoðun.

Síðan í september hafa fæðst tvö frumvörp; samfylkingarfrumvarpið, stóra frumvarpið svokallaða, sem sett var í endurvinnslu og veitti ekki af. (Gripið fram í: Þú veist ekkert um hvað þú ert að tala.) Það var tekið út úr þinginu af því að það var algjörlega á hreinu að það kæmist ekki í gegn í því formi sem það var.

Við ræðum hér VG-frumvarpið, litla frumvarpið, og það er ekki sátt um það. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) talar um að Sjálfstæðisflokkurinn sé klofinn í því máli.

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Ég veit nú ekki betur en að komið hafi fram í máli nánast allra sem talað hafa í þessu máli að í öllum þingflokkum séu skiptar skoðanir um þessi mál og sérstaklega þetta litla mál þar sem það er til umræðu. (Gripið fram í: Samanber nefndarálitið.) Samanber nefndarálitið.

Það verður ekki deilt um að þær athugasemdir sem komið hafa við litla frumvarpið eru nánast allar á sama veg; það er mjög gagnrýnt. Vinnubrögðin við frumvarpið eru gagnrýnd. Vísa ég þá til þeirra umsagna sem Sjómannasambandið, Helgi Áss Grétarsson, ASÍ og fleiri gáfu um það.

Heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu er það sem er sátt um að gera. Það þarf að breyta kerfinu. Við erum öll sammála um það. En það þarf að leggja í það vinnu. Það þarf að leggja mat á þær aðgerðir og þær breytingar sem gera þarf áður en farið er af stað með þær.

Hv. þm. og formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, mælti fyrir nefndaráliti í gær. Í andsvörum kom fram að hún væri ekki sátt við niðurstöðuna, hún hefði viljað ganga lengra. Hún talaði um að þetta væri ísbrjótur og að hún færi með það sem út úr frumvarpinu kom sem veganesti inn í þá vinnu sem fara á fram í sumar gagnvart heildarendurskoðuninni. Mér fannst engin sérstakur sáttatónn í hv. formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Það hræðir mig að við getum ekki reynt að koma á vinnulagi — þrátt fyrir að ákveðnir hv. þingmenn hafi verið að kalla fram í ræðu mína — þegar við ætlum að taka ákvarðanir um breytt skipulag á undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Það skapar ekki meiri sátt en er um kerfið í dag að fara fram með þeim hætti sem gert var núna.

Komið hefur fram í máli þeirra sem mælt hafa fyrir nefndaráliti meiri hlutans að í þessu frumvarpi séu pólitískar áherslur. Ég deili því ekki. Þetta eru pólitískar áherslur. Hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefur lagt mikla áherslu á atvinnusköpun með strandveiðum og verndum sjávarbyggða. Það hefur verið tónninn í ræðum hennar. Ég hefði gjarnan viljað hafa hana hér í salnum af því að mig langar að vita hvaða sjávarbyggðir hún er að tala um. Mig langar að vita hvaða atvinnutækifæri hún skapar með því að færa vinnu frá einum til annars. (Gripið fram í: Hvar er formaður nefndarinnar? …)

Að auka pólitískar útdeilingar á pottum og að auka vægi ráðherra við ákvarðanatöku og breytingar og reglugerðasetningar í kerfinu er ekki til þess fallið að auka sátt um kerfið, það gengur bara ekki. Það á að gera breytingar á kerfinu að vel athuguðu máli en þær þarf að gera. Það á að setja það inn í stjórnarskrána. Það er samkomulag um að auðlindirnar séu í þjóðareigu og að það eigi að vera algjörlega á hreinu, það er ekki deilt um það. Það er heldur ekki deilt um að það eigi að gera nýtingarsamninga. Það er ekki deilt um að á auðlindum landsins eigi að vera einhvers konar skattlagning.

Það er heldur ekki deilt um að það þurfi að vera einhvers konar samfélagslegar aðgerðir eða samfélagslegir pottar til að koma á móts við áföll. Það þarf líka að vera arðsemi í greininni svo hún geti skilað einhverju til þjóðarinnar. Á því á að byggja og það á líka að byggja á því að hagfræðileg úttekt sé gerð á þeim breytingum sem gera á á kerfinu og lagt af stað eftir að sú úttekt liggur fyrir.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni áðan að við höfum svolítið gleymt í allri þessari umræðu um sjávarútveginn og um það hverjir fá að sækja sjóinn og hvernig, að ræða vinnsluna og markaðssetninguna, sem hlýtur að vera hluti af sjávarútveginum, sem hlýtur að vera hluti af því hvernig við ætlum að fá tekjur og arðsemi af greininni. Það getur bara ekki annað verið en að við viljum hámarka það sem við fáum út úr greininni.

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hvort búið sé að taka á þeim alvarlegu athugasemdum öllum sem eru í frumvarpinu varðandi stjórnarskrána í ljósi þess að mikið er rætt um að búið sé að gera breytingar á frumvarpinu sem verði til þess að meiri sátt verði um það. Það kom ekki fram í gær. Það kom að mínu mati heldur ekki fullnægjandi skýring á því hvers vegna frumvarpið er ekki dregið til baka, það unnið betur og það sett inn í heildarpakkann sem gera á og sem er, að held ég, nokkuð góð sátt um.

Mig langar að enda þetta á jákvæðum nótum. Sjávarútvegurinn er fjöreggið okkar. Við lifum á því. Hann gengur vel í augnablikinu. Við verðum að muna að þetta er atvinnugrein sem 30 þúsund manns hafa atvinnu af. Þjóðin lifir á henni. Við þurfum að fara varlega þegar við gerum breytingar á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og það á ekki að ákveða í lokuðum herbergjum eða skrifa aftan á servíettur hvernig þær eru framkvæmdar og útfærðar.