139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að strandveiðar skili ekki miklu í þjóðarbúið og að þær séu ekki hagkvæmar. Hún líkir því við að menn heyi með orfi og ljá. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún styðji einstaklingsframtakið, af því að strandveiðar eru í raun það sem lýsir einstaklingsframtakinu best, að einstaklingurinn geti skapað sér vinnu á eigin forsendum. Margfeldisáhrif smáútgerða hafa sýnt sig og fyrir liggja skýrslur í þeim efnum. Það eru mjög mikil margfeldisáhrif af því. Litlar byggðir hafa ekki tök á því að slá saman í eitt stykki togara fyrir einhver hundruð milljóna króna eða jafnvel milljarða. Það er möguleiki fyrir einstaklinga í litlum byggðum að byrja smátt, skapa sér atvinnu, hafa möguleika á að sjá sér og sínum farborða með þessum hætti, framtaki einstaklingsins, kaupa sér bát og fara að róa. Ef hv. þingmaður er andvíg því að einstaklingurinn geti dregið sér björg í bú með þessum hætti og gerir lítið úr því er ég bara ekki sammála hv. þingmanni. Ég styð fólk í því að vera sjálfbjarga, að það geti ákveðið hvers konar vinnu það vinnur, og þess vegna finnst mér smábátaútgerð vera bara einn af mörgum góðum kostum í allri heildarflórunni. Auðvitað á stórútgerð að þrífast og allt þar á milli, en ég get ekki hugsað mér að á Íslandsmiðum séu t.d. átta togarar sem taki allan afla. Þeir gætu það en ég vil ekki sjá slíkan verksmiðjubúskap. Mér finnst að fjölbreytnin eigi að ráða ríkjum. (Forseti hringir.)