139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:30]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Raunar held ég að í hinum afleiddu störfum í sjávarútvegi, sem eru mikils virði, hafi vissulega átt sér stað þróun, held reyndar að sú nýsköpun gæti verið mun meiri en raun ber vitni, en það er annað mál.

Af hverju eigum við ekki að vísa þessu til haustsins? spyr hv. þingmaður. Hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar fór ágætlega yfir það að um er að ræða umtalsverða aukningu inn í strandveiðar og byggðakvóta sem skiptir máli fyrir lífsafkomu fólks. Þetta snýst náttúrlega um lífskjör og lífsafkomu fólks.

Strandveiðar eru sennilega elsti atvinnuvegur í landinu fyrir utan landbúnað. Upp af strandveiðum hefur sprottið sá útvegur sem við sjáum í stórútgerðinni í dag og einyrkinn verður auðvitað að fá að þrífast við hliðina á stóratvinnurekandanum. Við verðum að sjá fyrir okkur atvinnulíf þar sem lággróðurinn hefur sitt rými en skógurinn líka. Það er mjög átakanlegt að heyra talsmenn Sjálfstæðisflokksins koma í röðum upp í ræðustól og tala gegn því frumkvöðlastarfi og því einkaframtaki sem strandveiðar í eðli sínu eru.

Svo eru menn að tala um vald sjávarútvegsráðherra, að ekki hafi sést annað eins og í þessu frumvarpi. Menn ættu þá að lesa núgildandi fiskveiðistjórnarlög, kerfið sem sjálfstæðismenn sjálfir komu á, þar sem sjávarútvegsráðherra er gefið gríðarlegt vald sem menn hafa ekki kvartað undan að hafa meðan þeirra eigin menn hafa setið á stóli sjávarútvegsráðherra.