139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða hérna eitt við hv. þingmann sem er varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Fyrir ári var frestað með bráðabirgðaákvæði gildistöku sem snýr að hámarksprósentueign í krókaaflamarki sem er í dag 4% í þorski en til viðmiðunar er það 12% í stóra kerfinu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir það með mér að skynsamlegt væri að fresta þessu um eitt ár og vísa því þá inn í heildarendurskoðun á stjórn fiskveiða sem á að fara fram í haust. Þetta ákvæði snýr einungis að einu fyrirtæki á Suðurnesjum og mundi hafa alvarlegar afleiðingar að mínu viti. Væri hv. þingmaður tilbúin að taka það upp í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og beita sér fyrir því að bráðabirgðaákvæði yrði sett inn til að fresta gildistökunni? Ekki mundi standa á mér að styðja hv. þingmann í því.