139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður verði að beina þessum spurningum til hæstv. sjávarútvegsráðherra sem er flutningsmaður frumvarpsins. Ég sagði að ég hefði fyrirvara við þessa grein og sá fyrirvari stendur. (Gripið fram í.) Hins vegar varðandi það hvort ég hafi hugleitt hvaða áhrif innleiðing 2. gr. mundi hafa á byggðirnar hef ég gert það. Ég geri mér grein fyrir því að í hvert einasta skipti sem talað hefur verið um að breyta einhverju í íslenskum sjávarútvegi hefur greinin risið upp og hrópað hrun yfir greinina, fullyrt að hér færi allt á hausinn, menn yrðu reknir, svo og svo margir mundu missa vinnuna, gott ef menn hafa ekki sýnt óundirrituð uppsagnarbréf máli sínu til stuðnings.

Eins og sakir standa gef ég ekki mikið fyrir þennan málflutning eins og hann er fram settur og hefur verið. Hins vegar finnst mér sjálfsagt að fara betur yfir þetta mál. Eins og ég sagði finnst mér eðlilegt að hafa aðlögunartíma til þriggja ára og endurskoða málið eftir ár í ljósi reynslunnar. Reynslan er besti kennarinn.