139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:03]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að árétta það var ég ekki á því nefndaráliti sem hv. þingmaður vísaði til, en ég skal svo sem taka afstöðu til þess. Reyndar vildi til dæmis Landssamband smábátaeigenda taka það fram á síðasta fundi með sjávarútvegsnefnd að hin meinta neikvæðni þess í garð frumvarpsins væri oftúlkuð og það vildi að það kæmi fram að það væri jákvætt gagnvart fjölmörgu í frumvarpinu. Hins vegar er þetta mál svo hagsmunatengt, það vill enginn missa spón úr aski sínum og allir sem hugsanlega sjá að þeir missi eitthvað af sinni köku senda að sjálfsögðu inn neikvæðar umsagnir. Við verðum að geta tekið öllu slíku með fyrirvara.

Ég tek undir eitt, frumvarpið hefði mátt vera betur úr garði gert. Það hefur líka komið til kasta hv. sjávarútvegsnefndar að lagfæra frumvarpið og vísa til framtíðarvinnunnar varðandi stóra frumvarpið þeim málum sem eru umdeildust og erfiðust í meðförum þannig að það sem eftir stendur samkvæmt nefndarálitinu er hryggjarstykkið í málinu. Og með því stend ég. (Forseti hringir.)