139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á hvort hægt væri að skoða frestun á ákvæði um að krókaaflamarksbátar væru með aflahlutdeild að 4% í kerfinu. Ákvæðið rennur út 1. september 2011. Ég tel rétt að sú tillaga, ef hún kemur fram, verði skoðuð með opnum huga í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég er alveg tilbúin til að gera það. Mér finnst málið vera þannig að menn hljóti að skoða það með réttsýni í huga fyrst ekki er búið að endurskoða lögin eins og menn reiknuðu með að væri ef til vill búið að gera á þessum tíma.

Ég vil aðeins ræða jöfnun í potta, samfélagslega potta. Nú hefur það verið mikið í umræðunni að allt mundi fara á hvolf ef uppsjávargeirinn greiddi með sama hætti og útgerðir í bolfiski gera í samfélagslegu pottana. Þess vegna var nú bakkað með upphaflegar hugmyndir út úr frumvarpinu en ég studdi þær vegna þess að með þeim var þessum sjónarmiðum mætt.

Telur hv. þingmaður að það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir byggðir landsins ef þessi hluti flotans greiddi með sambærilegum hætti í samfélagslegu pottana og þeir sem eru í bolfiskveiðum hafa gert í 20 ár? Hver er skoðun hv. þingmanns á því?