139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[11:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svara síðustu spurningunni fyrst af því ég þykist vita að hv. þingmaður vilji fyrst og fremst heyra svarið við henni. Ég tel þörf á þeim, já. Ég rakti það í ræðu minni áðan. Maður má ekki vera blindur þegar upp koma þær aðstæður að bregðast þarf við, þá tel ég mjög mikilvægt að þeir séu fyrir hendi. En ég vara hins vegar við því hvernig þetta hefur þróast á undanförnum árum, við höfum sett of mikið inn í þetta að mínu mati, allt of mikið, og svo erum við einhvern veginn að þynna þetta út. Það er nú einu sinni þannig að sumar byggðir og svæði eru alltaf að setja inn í pottana en geta aldrei tekið út úr þeim. Við verðum að ræða þetta á þeim grunni og auðvitað þarf miklu dýpri umræðu en við höfum tíma til hér í andsvörum. Ég er tilbúinn að taka þá umræðu hvenær sem er og hvar sem er. Sum sveitarfélög leggja mikið inn í þetta en hafa aldrei fengið neitt út úr því. Við erum núna að færa til og það er mjög mikilvægt.

Okkur hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur greinir ekki mikið á um hvernig menn þurfa að skoða og læra af strandveiðireynslunni. Ég held að það sé mikilvægur þáttur sem komið hefur fram í umræðunni, að við skoðum þær einmitt út frá öryggismálunum. Við skulum gera það, við megum ekki gleyma þeim þætti. Sem betur fer var þetta annað árið, síðan land byggðist væntanlega, að minnsta kosti sem vitað er um, sem allir sjómenn komu heilir í höfn. Því ber að fagna. Engin stjarna var á fánanum. Við þurfum að vera meðvituð um að það er ekki sjálfgefið. Maður áttar sig ekki á því fyrr en maður er sleginn hastarlega utan undir annað slagið að ekki er sjálfgefið að allir komi heilir heim. Við skulum því vera meðvituð um það.

Hv. þingmaður spurði líka hvaða áhrif það hefði ef menn bættu í pottana. Ég held að mikilvægt sé að hv. þingmaður hugsi það eins og ég. Ég benti á í ræðu minni að nú erum við að minnka ýsukvótann úr 100 þús. niður í 37 þús. tonn eins og tillagan hljóðar upp á, væntanlega niður í 40 þús. tonn. Hvaða áhrif hefur það á bolfiskvinnslurnar hringinn í kringum landið? Þær eru ekki bara í einu kjördæmi, þær eru um allt land. Þetta mun auðvitað hafa alvarlegar afleiðingar vegna þess að þær eru alltaf að borga meira í pottana og verða líka fyrir skerðingum. Þetta gefur því augaleið og ég hef miklar áhyggjur af þessu.