139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri að sjálfsögðu efnislegar athugasemdir við margar greinar frumvarpsins. Ég tel til að mynda, eins og kom fram í máli mínu, að á meðan við höfum ekki gert á því hagfræðilega úttekt hvaða afleiðingar félagslegi þáttur kerfisins hefur haft, á meðan við höfum ekki skoðað það, eigum við alls ekki að efla hann enn frekar vegna þess að það er svo erfitt að fara til baka. Hvernig ætla menn að vinda ofan af strandveiðunum ef það kemur nú í ljós eftir að við gerum úttekt á strandveiðunum að þetta er tóm vitleysa og skilar sér ekki eins og talið er? Ef sú staðreynd er rétt sem kemur fram hjá Fiskistofu og ég efast ekki um, að 40% af þeim sem eru í þessu hafi áður selt sig út úr kerfinu, þá hefur þetta ekki náð neinum markmiðum.

Við þyrftum því að skoða 2. gr. dýpra út frá áhrifum á fyrirtækin og byggðarlögin sem um ræðir. Auðvitað væri eðlilegt að við skoðuðum þetta til að geta tekið meðvitaða ákvörðun um áhrif þess sem við ákveðum. Við erum aftur á móti, eins og ég lýsti áðan, að milda áhrifin með því að taka þetta í svona stuttum skrefum og gefa mönnum aðlögunartíma og við getum þá líka breytt stefnunni á leiðinni ef þarf.

Ég held reyndar, virðulegi forseti, og vil segja það vegna spurningar hæstv. ráðherra að best væri að stoppa hér og nú. Þó að ég taki klárlega undir mikilvægi þess að 2. gr. þurfi að fara í gegn eru heildarhagsmunir greinarinnar þeir að stoppa núna, hætta þessari óvissu og taka ákvörðun um að hefja vinnu í haust á grundvelli niðurstöðu sáttanefndarinnar. (Forseti hringir.) Í þeirri vinnu voru menn sammála um 2. gr. Í mínum huga verður sú niðurstaða að koma inn.