139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:12]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála því að í öllu tilliti þurfum við að gera ráð fyrir einhverjum hluta aflahlutdeilda til félagslegra ráðstafana. Við þurfum að geta brugðist við gagnvart byggðum sem eiga í tímabundnum vanda og byggðum sem þurfa lengri aðlögun til að geta byggt upp fyrirtæki sín og til að viðhalda starfsemi á viðkvæmum svæðum og byggt hana upp. Við höfum séð sorgleg dæmi sem við viljum ekki að endurtaki sig. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um það. En í því sambandi held ég að mjög mikilvægt sé að þetta verði ákveðið hlutfall af heildarfiskveiðiheimildunum, eins og komist var að niðurstöðu um í sáttanefndinni, svo menn viti að hverju þeir ganga til lengri tíma og ekki sé alltaf verið að krukka í þetta eins og gert hefur verið.

Mér er mjög til efs að skynsamlegt hafi verið að ráðstafa þeim tonnum sem sett hafa verið í strandveiðarnar eins og gert hefur verið. Ég held að miklu skynsamlegra hefði verið að geta markað skýrari stefnu um hvert ætti að fara heldur en að dreifa þessu svona um allar trissur. Þetta er óhagkvæmar veiðar.

Mér fyndist mikilvægt að ljúka við 2. gr. og jöfnunarúrræðin á milli útgerðarflokka um framlag í félagslegu pottana á þessu þingi. Ég skal viðurkenna það. Ég væri tilbúinn að leggja því lið. En mér fyndist skynsamlegt að hætta við málið eins og ég fór yfir áðan. Ég sagði að ég væri tilbúinn að leggja því lið að hæstv. ráðherra gæti fengið fyrningarnar sem hann ætti í strandveiðarnar. Við skulum bara bæta inn í tilboðið að klára 2. gr. (Forseti hringir.) með mildri leið eins og við mörkuðum okkar með (Forseti hringir.) niðurstöðu nefndarinnar.