139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vildi spyrja hann að tveimur atriðum. Hann talaði um réttlæti og um að mörgum hafi sviðið. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni þegar aðilar selja sig út úr greininni. Það þýðir þá jafnvel að sá kvóti fer úr viðkomandi byggðarlagi. En jafnvel þó að sú sé ekki raunin finnst mönnum ósanngjarnt að menn geti selt sig út með hagnaði.

Frumvarpið sem við ræðum hér gengur út á það að þeir aðilar sem hafa selt út með hagnaði geta komist ókeypis inn í kerfið aftur. Þeim aðilum sem hafa keypt og vilja halda áfram í útgerð, vilja safna sér aflaheimildum, er refsað á kostnað þeirra sem eru búnir að taka út hagnaðinn í greininni.

Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvort honum finnist þetta vera réttlæti. Þetta er fyrsta spurningin.

Við sjáum öll hvað er í gangi. Þetta mál kemur inn löngu eftir þann frest sem gefinn er til þess að hægt sé að vinna það vel og málefnalega. Það er úrskurðað fullkomlega vanbúið af öllum umsagnaraðilum og við erum að ræða um undirstöðuatvinnuveginn, hvorki meira né minna. Eins og hv. þingmaður veit hafa menn verið hlaupandi hér í öllum bakherbergjum í einhverjum hrossakaupum að breyta þessum undirstöðuatvinnuvegi okkar og við vitum ekkert hvernig staðan er núna. Við vitum ekkert hvað verður samþykkt og við vitum ekkert hvaða afleiðingar það hefur.

Hvað finnst hv. þingmanni um þessi vinnubrögð? Er hann tilbúinn til að styðja mál (Forseti hringir.) sem unnið er með þessum hætti?