139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir að hafa hlustað á ræður þingmanna úr stjórnarflokkunum held ég að öllum sé ljóst að málið er að verða svolítið vandræðalegt fyrir þá. Og ekki bara svolítið. Það er ekki bara vandræðalegt fyrir stjórnarflokkana heldur er það líka vanbúið. Tíu dagar eru síðan þessi stóru mál, risastóru mál sem snerta sjávarútveginn, komu inn í þingið og nú er eiginlega verið að taka annað þeirra út úr þinginu með töngum. Eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar er alveg ljóst að hann setur fram ákveðna og mjög skiljanlega fyrirvara í máli sínu.

Augljóst er að það er ekki bara áherslumunur á milli stjórnarflokkanna og innan þeirra um sjávarútvegsmálin heldur líka gríðarlegur ágreiningur. Mín tilfinning er sú að í þessu máli sé bara verið að ýta tveimur atriðum áfram, þ.e. annars vegar pottunum til að fullnægja kröfum frá sjávarútvegsráðherra svo hann geti farið í einhverja pottagaldra í haust og hins vegar veiðileyfagjaldinu því að Samfylkingin verði að fá eitthvað táknrænt út úr þinginu á þessu þingi í staðinn fyrir að bíða með breytingarnar sem væri það eina skynsamlega.

Spurning mín til hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar snertir einmitt það: Tekur hann undir það með mér að réttara hefði verið að bíða með málið sem við ræðum núna, ekki bara af því að efnahagslegur ávinningur þess liggur ekki fyrir né kostir og gallar heldur líka vegna þess að gríðarlegur meiningarmunur er á milli svo margra innan þingsins um útfærslu á frumvarpinu? Það birtist best í því að ekki er einu sinni meiri hluti í sjávarútvegsnefnd fyrir málinu heldur getur aðeins einn þingmaður úr stjórnarliðinu stutt það fyrirvaralaust. Ber þetta ekki vott um að við hefðum átt að flýta okkur aðeins hægar og taka málið allt saman til endurskoðunar í haust? (Forseti hringir.) Ég held að styttra sé á milli manna en menn halda eftir allar þessar umræður, frú forseti.