139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:40]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það vill svo vel til að við höfum nú þegar borð fyrir báru í úthlutun strandveiða í sjóðum ráðuneytisins þannig að hægt að fara þá leið per se og auka eitthvað við þær án þess að hreyfa við sjálfri kerfisbreytingunni. Ég hef í auknum mæli horft til þess.

Almennt vil ég segja og tek að öðru leyti undir með því sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði í seinna andsvari sínu, að mikilvægasti partur umræðunnar snertir þá auknu sátt sem er að verða um meginkerfisbreytinguna. Útfærslurnar eru flóknar og fyrir vikið eru þær erfiðari partur umræðunnar og á einhverjum tímapunkti verðum við að hægja á og hugsa málið betur.

Ég vek líka athygli á mörgum orðum háttvirtra útgerðarmanna í þessu efni á síðustu dögum og vikum. Þeir tala í auknum mæli fyrir sátt og sjálfri kerfisbreytingunni. Það er mjög vel að allir aðilar málsins séu farnir að átta sig á því að (Forseti hringir.) þjóðinni er fyrir bestu að fara leið sáttar í þessu efni en staldra ekki einvörðungu við misklíðina.