139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á orðum hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem staðfesti hið augljósa, að hér er mjög vanbúið mál á ferðinni sem snertir grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar. Ef Alþingi hefur einhvern tímann í sögu þingsins verið færibandastofnun fyrir framkvæmdarvaldið er það nákvæmlega núna. Við stöndum hér í dag og eftir því sem ég best veit eru hvorki meira né minna en allir helstu hæstv. ráðherrar mættir í hús til þess að stunda hrossakaup með undirstöðuatvinnuveg íslensku þjóðarinnar. Það er að vísu mikið um hrossakaup hjá stjórnarliðunum í öllum bakherbergjum. Það eina sem er alveg ljóst, sama hver niðurstaðan verður í frumvarpsdrögunum — það sem við ræðum núna, það sem er búið að vera til umræðu, er svo sannarlega ekki sjálfgefið að verði niðurstaðan — er að við vitum ekki hvaða afleiðingar þetta hefur á sjávarútveginn. Af hverju, virðulegi forseti? Vegna þess að það hefur ekkert verið skoðað. Jafnvel þótt við mundum samþykkja frumvarpsdrögin eins og þau eru núna er algjörlega óljóst hvaða afleiðingar það hefur. Það er kaldhæðnislegt að hæstv. ráðherrar, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, sem hafa talað gegn því kerfi sem þau settu á laggirnar fyrir 20 árum síðan, samfleytt nokkurn veginn, þegar þau komu framsalinu inn í aflamarkskerfið og festu það, að þau skuli koma núna með frumvarp — ég held að einhver hafi nefnt að hafi komið inn fyrir 10 dögum síðan — sem er jafnvanbúið og illa unnið og afgreitt af held ég öllum umsagnaraðilum. Ég er ekki búinn að heyra um einn einasta umsagnaraðila sem hefur verið sáttur við þetta frumvarp sem fullkomlega ónothæft fyrir undirstöðuatvinnuveginn.

Nú er það þannig, virðulegi forseti, að við erum með ákveðnar reglur. Í stuttu máli þarf að leggja fram frumvörp fyrir 1. apríl. Af hverju? Til þess að menn geti unnið málin vel og vandlega. Þetta er m.a. það sem kallað hefur verið eftir lengi. Menn vísa í rannsóknarnefndarskýrsluna eins og bókstafstrúarmenn vísa í biblíuna. Í rannsóknarnefndinni var mikið lagt upp úr því að vanda ætti betur vinnubrögð þingsins. Ég mundi því ætla þegar kemur að undirstöðuatvinnuveginum, jafnmikilvægt mál það nú er, að menn héldu sig við frestinn, 1. apríl, þannig að hv. þingnefnd gæti farið vel yfir málið. Nei, virðulegi forseti, ég held það hafi verið lagt fram tveimur mánuðum eftir að sá frestur rann út, það var samþykkt með afbrigðum og síðan á að keyra það í gegnum þingið á ógnarhraða. En í millitíðinni þegar það er að renna upp fyrir hv. stjórnarliðum hvers konar óskapnaður það er sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hlaupa menn á milli herbergja í hrossakaupahugleiðingum, hugsanlega til að reyna að bjarga einhverju eða ná einhverjum markmiðum sem henta einhverjum aðilum, hvort sem þeir eru innan þings eða úti í bæ. Ég veit það ekki, virðulegi forseti. Það sem ég veit hins vegar er að þessi vinnubrögð eru fullkomlega fyrir neðan allar hellur. Og þeir sem bera ábyrgð á þessum vinnubrögðum eru þeir sem eru í forustu fyrir þessari ríkisstjórn, hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon. Þetta fólk skal aldrei — aldrei — tala aftur um fagleg vinnubrögð eftir að vera búin að vinna með þessum hætti í svo mikilvægu máli. Það er fullkomlega fráleitt að þau skuli svo mikið sem minnast á fagleg vinnubrögð aftur.

Ég verð að viðurkenna að það er einn kostur við þetta. Hann er sá að hér er einn hv. þingmaður, góður drengur, prófessor í stjórnmálafræði, sem verður vitni að þessu, sér þetta með eigin augum og kemur inn sem varaþingmaður. Þeim sem þekkja til í stjórnmálum hefur fundist álitsgjöf í fjölmiðlum og annars staðar, t.d. hjá akademíunni, vera ansi sérstök, en nú þegar prófessorinn er búinn að sjá það með eigin augum hvernig vinnubrögðin eru getur hann borið þær fregnir inn í akademíuna og ég efast ekki um að hann geri það. Við munum því örugglega sjá álitsgjöf sem ekki verður svo mörkuð af óskhyggju en meira af því hvernig kaupin gerast raunverulega á eyrinni.

Staðreyndin er sú að þessi ríkisstjórn sem notar alls konar faguryrði þegar hún lýsir eigin störfum og starfsháttum er fyrst og fremst í því að „lobbíera“. Hún er í hrossakaupum með flesta hluti og sérstaklega þá hluti sem mestu varða fyrir íslensku þjóðina. Í þessu tilfelli eru það sjávarútvegsmálin.

Það er hins vegar mjög eðlilegt að menn fari vel yfir sjávarútvegsmálin. Jafnvel þó að við höfum náð góðum árangri, svo góðum að aðrar þjóðir líta til okkar þegar þær skoða stjórnkerfi fyrir takmarkaðar auðlindir, ekki bara vegna sjávarútvegsins, erum við nú að lögfesta kerfi í loftslagsmálum sem er sambærilegt aflamarkskerfinu í sjávarútvegi. Það var ekki þannig að við höfum lagt upp með það, við erum hér að innleiða loftslagsmarkaðskerfi Evrópusambandsins sem tekið er upp á EES-svæðinu. Þar er sama grunnhugmynd, menn eiga hér við sameiginlega auðlind. Í því tilfelli er það andrúmsloftið, ef þannig má að orði komast. Menn eru að reyna að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda en í sjávarútveginum erum við með takmarkaða auðlind sem er fiskurinn í sjónum og þar erum við að reyna að ná markmiðum í náttúruvernd. Við viljum ekki veiða og ganga um of á stofna, við viljum hafa sjálfbærar veiðar og viljum hafa þær arðbærar því að ef sjávarútvegur er ekki arðbær á Íslandi er virkilega illa fyrir okkur komið.

Til að setja það í eitthvert samhengi hefur hv. þm. Jón Gunnarsson bent á að framlög Evrópusambandsins til sjávarútvegsmála innan Evrópusambandsins séu 300 milljarðar kr. á ári — 300 milljarðar. Ef við reiknum það yfir á íslenskan sjávarútveg, þ.e. ef við mundum borga jafnmikið bara miðað við stærð, greiddi íslenska ríkið, ríkissjóður, 100 milljarða með íslenskum sjávarútvegi.

Þarna er gríðarlega stór munur á, annars vegar erum við með sjávarútveg sem skilar arði á Íslandi og hins vegar erum við með í raun félagslegt kerfi fyrir heila atvinnugrein eins og er hjá Evrópusambandinu. Það er því ekki að undra að Evrópusambandið líti til Íslands þegar kemur að stjórnkerfi fiskveiða. Ég tek það fram ef einhver sem á þetta hlustar heldur að það sé góð sátt um sjávarútvegsmálin í Evrópusambandinu, að mönnum þykir fiskveiðistjórnin vera réttlát, ef einhver heldur að umhverfissamtök séu ánægð með stjórnina, er það allt saman misskilningur. Það eru miklar deilur um sjávarútvegsmálin á þeim stöðum þar sem sjávarútvegur skiptir máli innan Evrópusambandsins. Umhverfissamtök eru svo sannarlega ekki ánægð með það fiskveiðistjórnarkerfi sem er í sjálfu Evrópusambandinu.

Það er gaman að sjá (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra Jón Bjarnason og hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson ganga í salinn þegar ég ræði Evrópusambandið því að báðir eru þeir áhugamenn um það bandalag (Gripið fram í.) og báðir eru þeir í ríkisstjórn sem sótt hefur um aðild Íslands að Evrópusambandinu, hvorki meira né minna. (Gripið fram í.) Það er nú þannig …

(Forseti (RR): Forseti biður hæstv. ráðherra að gefa ræðumanni hljóð.)

… í öðrum löndum að ef menn eru ósammála í grundvallaratriðum þeirri hæstv. ríkisstjórn sem situr segja þeir sig úr henni en hér dandalast menn með þrátt fyrir að farið sé gegn sjónarmiðum þeirra í grundvallaratriðum.

Út á hvað gengur þetta mál, virðulegi forseti? Hvað er verið að gera? Menn segjast vera að auka réttlætið í sjávarútvegsmálum. Ég held að óhætt sé að halda því fram að mörgum hafi fundist það ósanngjarnt að hægt væri að selja sig út úr greininni. Það er eitt af því sem er fylgifiskur þess frjálsa framsals sem leiðir í eðli sínu til hagræðingar, en þetta gerir það að verkum að það er hægt að selja sig út úr greininni og margir hafa hagnast á því.

Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera í því? Jú, hún ætlar að sjá til þess að þeir einstaklingar sem hafa selt sig út úr greininni geti komið sér ókeypis inn í greinina aftur og umbunar þeim sérstaklega sem hafa selt sig út úr greininni á kostnað þeirra sem hafa keypt sér aflaheimildir vegna þess að þeir vilja standa í útgerð og fá meiri aflaheimildir á þá útgerðarstaði sem þeir gera út frá. Það hefur alla jafna þótt vera jákvætt og verið stuðningur við að menn starfi við greinina og styrki byggðarlög sín.

Ríkisstjórnin ætlar í nafni réttlætis að umbuna sérstaklega þeim sem eru búnir að selja sig út úr greininni. Út á það gengur málið.

Ég veit ekki hvort almenningur áttar sig á því að það er stóra málið. Það er stóra atriðið í málinu að koma þeim sem eru búnir að selja sig út úr greininni ókeypis inn í hana aftur og hegna þeim sem eru búnir að kaupa sér aflaheimildir.

Síðan er hitt að það á að auka vald stjórnmálamanna, nánar tiltekið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það á að stórauka vald hans til að geta skipt sér af greininni og haft áhrif á fólk sem þar starfar, byggðalög og fyrirtæki. Það er mikilvægt að mönnum verði það ljóst að verið er að færa vald til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun meira vald en við höfum séð svo áratugum skiptir.

Á tyllidögum þegar hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru í góðu skapi tala þeir um að þeir séu nútímalegir jafnaðarmenn.

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að það er svolítið síðan ég heyrði þetta síðast en ég vil bara vekja athygli á því að væntanlega felst í því að vera nútímalegur jafnaðarmaður að færa völd, að færa lífsafkomu heilu byggðarlaganna yfir til stjórnmálamannanna. Það er væntanlega það að vera nútímalegur jafnaðarmaður en á sama tíma vilja menn setja heimildir í lög sem gera það að verkum að fólk sem gleymir að skila evrunum eða dollurunum sínum getur átt fangelsisvist yfir höfði sér.

Það er nú nútímamennskan í jafnaðarmennskunni þegar á reynir og sýnir okkur svo ekki verður um villst að Samfylkingin er fyrst og fremst Alþýðubandalagið endurborið, en það er ekki (Gripið fram í.) auðvelt, jafnvel fyrir færustu vísindamenn, að finna leifar af gamla Alþýðuflokknum í Samfylkingunni — lái mér hver sem vill að hafa ruglast á þessum tveim flokkum. Það væri þá helst að menn gætu fundið einhverjar slíkar leifar í hv. þm. Kristjáni Möller ef menn leituðu.

Hvað sem því líður er erfitt að tala efnislega um mál sem allir á þinginu vita að tekur sífellt breytingum í bakherbergjum. Enginn álitsgjafi er kallaður til. Ekki er farið yfir umsagnirnar sem komu frá fagaðilunum og reynt að koma til móts við þær. Nei, virðulegi forseti, í bakherbergjunum eiga sér nú stað allra handa samningaviðræður milli stjórnarliða í dauðans ofboði vegna þess að þetta mál skal klárast í dag. Þá er reynt að bjarga einhverjum hagsmunum til eða frá og vonandi er það gert með það í huga að reyna að bjarga hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Svona eru vinnubrögðin hjá hæstv. ríkisstjórn. Þetta er enn ein birtingarmyndin af vinnubrögðunum hjá hæstv. ríkisstjórn. Þetta eru viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar við tillögum rannsóknarnefndarinnar og annarra þeirra aðila sem kallað hafa eftir faglegum vinnubrögðum á þessum vettvangi. Þetta eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar að hv. stjórnarliðar hlaupa hér á milli herbergja í baktjaldamakki um undirstöðuatvinnuveg íslensku þjóðarinnar. Þetta er svarið. Það vita allir. Það veit hver einasti hv. þingmaður að svona er unnið í þessu máli. Það veit hver einasti starfsmaður hér sem og fjölmiðlamaður sem fylgist með framvindunni. Þetta eru vinnubrögðin. Núna, klukkan sjö mínútur yfir eitt á laugardegi, gæti eitthvað mikið verið að breytast í þessu frumvarpi.

Þetta er svo skýr birtingarmynd af vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar. Hún verður ekki skýrari. Svona vinnur þessi ríkisstjórn. Núna er það hvorki meira né minna en undirstöðuatvinnuvegur íslensku þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, á morgun verður það eitthvað annað.

Hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, forustumenn í þessum flokkum og landgönguliðar, skulu aldrei — aldrei — segja að þessir flokkar vinni faglega að málum vegna þess að það eru hrein og klár ósannindi.

Ef við ætlum að fylgjast með því hvað er að gerast í þessu máli ættum við að setja upp sjónvarpsskjái þar sem helstu aðilum stjórnarliðsins er fylgt og það tekið upp hvað þeir eru að makka í hliðarherbergjum. Þá mundum við vita hvað er á ferðinni nákvæmlega núna því að ekki er unnið með hefðbundnum hætti eins og á að gera þegar menn vinna faglega að málum.

Virðulegi forseti. Það er alvarleiki málsins. Hér er ekki um eitt smámál að ræða. Þetta eru sjávarútvegsmálin.