139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[13:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er auðvitað spurning hvort hægt sé að makka um hagsmuni þjóðarinnar í hliðarherbergjum. Ég veit það ekki, ég veit hins vegar að ég hef mjög miklar áhyggjur af því hvernig mál þróast á þinginu og þá ekki síst í þessu máli. Það er ekkert leyndarmál að ástæðan fyrir því að ég lagði mesta áherslu á vinnubrögð í þessu máli er sú að ég er að vekja athygli á þeim. Við hv. þingmaður sem komum í þetta andsvar erum ekki hér í bakherbergjum að makka um þetta frumvarp. Hugmyndin er ekki sú að þannig sé unnið. Hugmyndin er sú að það sé talað fyrir máli. Ástæðan fyrir því að við erum með lokadag 1. apríl er að það á að vera tryggt að við höfum nægan tíma ef við ætlum að klára mál að vori að það fái efnislega umfjöllun.

Hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur lýst því yfir að ekki hafi farið fram efnisleg umræða í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um þetta mikilvæga mál. Hvað þýðir það? Það þýðir að það hefur ekki verið rætt. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Þetta sagði hv. þm. Björn Valur Gíslason við fjölmiðla. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Þá verða menn að eiga í því innan stjórnarliðsins ef þeir eru ósammála þar. (Gripið fram í.) Ég fullyrði hins vegar að hér er ekki unnið faglega þegar menn eru á hlaupum að bjarga einhverju fyrir horn. Umræðan fer minnst fram í þingsalnum, hún fer fram einhvers staðar annars staðar og það vita allir sem vilja vita. Ég vona að niðurstaðan verði í þágu þjóðarinnar en ég er ansi hræddur um að það verði langt frá því, sérstaklega ef þetta verður samþykkt eins og það lítur út núna.