139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[13:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni. Ég spurði hann um hvaða hagsmuni þjóðarinnar þyrfti að makka í bakherbergjum. Ég get ekki séð fyrir mér neina hagsmuni þjóðarinnar sem þola ekki dagsljósið í ræðustól vegna þess að kjósendur hljóta almennt að vera hlynntir þeim og það þarf ekki að fara í neinn feluleik með það.

Ég skil það þannig að þegar menn eru að makka í bakherbergjum til að ná í tonn hér og tonn þar í þessa og hina hagsmunina, til atkvæðakaupa í heimabyggð og annað slíkt, séu þeir að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar. Ég fullyrði að sérhvert makk í bakherbergjum er gegn hagsmunum þjóðarinnar. Ef það eru hagsmunir þjóðarinnar getur maður bara sagt þjóðinni: Ég er að vinna fyrir þig í þessu máli.