139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[13:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum ég er kominn í vörn fyrir þessi vinnubrögð hérna. Öll ræða mín gekk út á að gagnrýna þau og mér finnst það vægast sagt ósanngjarnt að hv. þm. Pétur H. Blöndal ætli að gera mig ábyrgan fyrir þeim. Það er mesta óréttlæti sem ég hef heyrt um mjög lengi.

Stóra einstaka málið er að ekki er verið að vinna þannig að það sé tryggt að haldið sé utan um hagsmuni þjóðarinnar. Það er bara staðreynd. Það getur enginn haldið því fram sem fer yfir vinnulagið í þessu máli, ekki nokkur maður, að þetta sé eins og við viljum sjá unnið að málum, í það minnsta í orði kveðnu. Það getur vel verið að menn geti sagt að í einhverju máli fyrir fimm árum, sjö árum, tíu árum, fimmtán árum, hafi þetta verið gert en það var þá heldur ekki til fyrirmyndar.

Virðulegi forseti. (BVG: … heilbrigðisráðherrann …) Við erum núna í þeirri stöðu að við ákveðum — t.d. er hæstv. utanríkisráðherra lykilmaður í að ákveða það hvernig vinnubrögð verða í þessu máli. (Utanrrh.: Get ég það?) Hv. stjórnarliðar hafa enn þá tækifæri til að sjá að sér og gera hið augljósa, þ.e. draga þetta mál til baka og vinna það almennilega. Síðan er hinn valkosturinn að halda áfram með það vinnulag sem hér er og klára málið. Sá möguleiki er til staðar. En þá liggur alveg fyrir enn ein staðfestingin á því hvernig þessi hæstv. ríkisstjórn starfar. (Forseti hringir.)