139. löggjafarþing — 152. fundur,  11. júní 2011.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar forseta.

891. mál
[13:47]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar sem er vafalaust einn merkasti maður sem uppi hefur verið á þessu landi. Mér er hins vegar ekki alveg sama hvernig það er gert. Nú er ég ekki að segja að ekki sé virðing að stofna embætti við Háskóla Íslands í nafni hans. Á hinn bóginn er Háskóli Íslands sjálfstæð stofnun og í lögum nr. 63/2006, um háskóla, hefst 2. gr. þannig:

„Háskóli er sjálfstæð menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum …“ o.s.frv.

Mér finnst grundvallaratriði að háskólinn er sjálfstæð stofnun. Mér finnst það bæði gamaldags og ekki góð vinnubrögð sannast að segja að Alþingi Íslendinga hlutist til um hvernig háskólinn skipar sínum störfum. Þess vegna, virðulegi forseti, sama hversu virðingarvert, göfugt og flott þetta er, er ég hrædd um að ég geti ekki greitt þessu atkvæði mitt.