139. löggjafarþing — 152. fundur,  11. júní 2011.

prófessorsstaða tengd nafni Jóns Sigurðssonar forseta.

891. mál
[13:56]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega var Jón Sigurðsson frelsishetja þjóðarinnar en hann var fæddur vestur á fjörðum. Hann var þingmaður Vestfirðinga. Nafn hans tengist Vestfjörðum órjúfanlegum böndum og ég átta mig ekki alveg á hvað þingmaðurinn er að fara. Ég sé ekki af hverju fólki ætti að finnast það óviðeigandi að koma á laggirnar prófessorsstöðu sem beinlínis er tengd nafni Jóns Sigurðssonar vestur á fjörðum þar sem þingmaðurinn átti uppruna sinn, sleit barnsskónum, drakk í sig orku og kraft vestfirskra fjalla og það nýttist honum vel í sjálfstæðisbaráttu fyrir okkur Íslendinga. Ég sé ekki að neinn staður eða neitt svæði annað sé betur við hæfi að taka við slíkri prófessorsstöðu, sérstaklega í ljósi þess sem ég sagði áðan að Háskóli Íslands hefur haft það á stefnuskrá sinni að byggja upp rannsóknir og fræðastarf út um landsbyggðina og hefur gert það markvisst. Ég hef enga trú á öðru en að háskólinn fagni þessari tilhögun.

Um ágreininginn sem hv. þingmaður var að vísa til veit ég hins vegar ekkert því ég er bara búin að hlusta á tvær ræður í tilefni af þessari tillögu.