139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég ætla að tjá mig fyrir hönd okkar framsóknarmanna í þessu flókna máli. Mig undrar ekki að hv. þm. Pétur H. Blöndal sem ekki er í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd komi upp og finnist erfitt að henda reiður á öllum þeim breytingartillögum og þeim minni hlutum sem skýra frá nefndarálitum sínum. Fyrir okkur sem sitjum í nefndinni er það býsna flókið líka. Margar af þeim breytingartillögum sem hér hafa verið unnar, hvort sem þær hafa átt uppruna sinn í bakherbergjum eða í því að menn séu að reyna að ná samkomulagi á vitrænum grunni, eru til bóta og margar þær tillögur sem fram voru komnar áður eru einnig til bóta. Það er þó á þeim sá ágalli að við höfum ekki haft tíma til að ígrunda þær sjálfar, hvað þær þýða nákvæmlega, hvorki efnahagsleg né hagfræðileg áhrif, hvorki á þjóðarbú, byggðarlög né einstök fyrirtæki, og það er mjög erfitt að vinna undir þessari pressu um þingfrestun.

Það er alveg sama í hvaða máli það væri en það er ekki síst erfitt þegar við erum að fjalla um svona mikilvæga atvinnugrein. Sjávarklasinn veltir um 300 milljörðum, 25 þús. manns í landinu koma að greininni með einum eða öðrum hætti og útflutningstekjur þjóðarinnar eru að 1/4 úr þessari atvinnugrein. Þess vegna ættum við að leggja miklu meiri vinnu í að vanda okkur og ég ítreka þá tillögu okkar framsóknarmanna sem ég lagði fram í nefndaráliti seint í gærkvöldi þar sem við leggjum til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég vona svo sannarlega að það verði gert. Það mundi einfalda lífið á þinginu og flýta fyrir því að ná fram þeirri þingfrestun sem varð samkomulag um. Ef það gengur ekki munum við greiða atkvæði um einstakar greinar. Þar sem þetta mál er stjórnarinnar sem þarf að bera ábyrgð á því munum við greiða atkvæði með því að fella út greinar sem eru greinilega ólánsgreinar en sitja hjá að mestu leyti. Í Framsóknarflokknum er þó fullkomið frelsi til að greiða atkvæði eins og menn vilja í einstökum greinum, kjósi þeir að fylgja sannfæringu sinni og hún sé það sterk að þeir telji (Gripið fram í.) að þeir hafi getað myndað sér skoðun á málinu þrátt fyrir að hér hafi enginn þingmaður, ekki þeir sem sitja í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hvað þá aðrir, haft tíma eða möguleika á að gaumgæfa afleiðingar þessa frumvarps.