139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það virðist sjá fyrir endann á umræðum um sjávarútvegsmál núna fyrir vorið í það minnsta. Ég vil í stuttri ræðu, frú forseti, taka undir þau orð sem hér hafa fallið um vinnubrögð við frumvarpið. Það getur vel verið að hægt sé að finna dæmi um slík vinnubrögð einhvers staðar annars staðar eða áður og allt það en það er þá ekki til eftirbreytni.

Ég held að við hljótum að sjá að þegar við fjöllum um helstu atvinnugrein þjóðarinnar sé betra að gera það í sem bestri sátt. Það verður aldrei alger sátt um þetta frekar en annað þegar verið er að stýra sókn í takmarkaðar auðlindir, við vitum það. Það er bara þannig. En við þurfum að reyna að vinna að því að ná sem bestri sátt og við þurfum líka að sammælast um að setja málin í ferli sem er þá líklegt til þess að skila niðurstöðu þar sem færri en fleiri eru ósáttir. Það er það sem ég vil draga fram.

Við höfum að sjálfsögðu hvert okkar skoðanir á þessum málum. Það er eflaust þannig með flesta í landinu. Fyrir mörg okkar sem erum í meiri nálægð en aðrir, og er ég ekki að gera lítið úr öðrum, þá þekkjum við það að sjávarútvegurinn skiptir gríðarlega miklu máli á mörgum stöðum í kringum landið. Við erum öll vonandi að hugsa um atvinnuöryggi þess fólks þegar við fjöllum um þau mál. Það er það sem mér finnst mestu skipta um það frumvarp sem hér um ræðir og hvernig við tökum á málunum í framtíðinni, að við verðum að huga að þessu. Ég get ekki túlkað þetta frumvarp og þær breytingar sem verið er að leggja fram sem lið í því að tryggja atvinnuöryggi fólks í sjávarútvegi, því miður.

Mikið hefur verið rætt um 2. gr. frumvarpsins sem lýtur að bótum eða pottum. Því miður hefur ekki tekist að ganga í það réttlætisverk að jafna milli útgerðaraðila eða jafna milli þeirra sem leggja til í þá potta. Enn er það þannig og nú segi ég það óábyrgt, frú forseti, að um 400 aðilar gætu verið að leggja í þessa potta í dag meðan slagurinn síðustu klukkustundir og daga hefur verið um það hvort fimm, sex, eða sjö stórfyrirtæki eiga að leggja í þá eða ekki.

Hér er komin ákveðin breytingartillaga sem mörgum okkar finnst ekki ganga nógu langt í að jafna þetta. Það er þá verkefni næstu mánaða, næsta þings væntanlega, að reyna að ná þeim jöfnuði. Ég trúi því að innst inni sjái þingmenn sem horfa á málið að þetta er réttlætismál. Það er réttlætismál að ganga þann veg.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Mikil umræða hefur verið um málið og hún mun að sjálfsögðu verða áfram. En ég bið þingmenn, hæstv. forseta og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að tryggja það að við tölum sjávarútveginn upp en ekki niður og að við sammælumst um að þær breytingar sem kunna að verða gerðar verði gerðar í víðtæku samráði. Ég skora á hæstv. ráðherra að lýsa því yfir.