139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er sjaldgæft að forustumaður í Sjálfstæðisflokknum birtist með svo nöktum hætti sem talsmaður útgerðarinnar í landinu. Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði bara fyrir hagsmunum útgerðarinnar. Ég skal svara hv. þingmanni fyrir mína hönd og minna pólitísku vandamanna hvernig stendur á því að við höfum stutt það síðustu tvö árin að stærra hlutfall hafi farið í fyrsta lagi til strandveiðanna og í öðru lagi í það sem hann kallar byggðapotta. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að kvótakerfið hefur að mörgu leyti reynst ágætlega og það hefur ýtt undir hagkvæmni í greininni.

Ég hef alltaf haldið til haga þeirri skoðun minni, og ég hélt að ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins væru því sammála líka, að kvótakerfið hefur skuggahliðar. Þær birtast í því að þegar sú staða kemur upp að til dæmis einstakir stórir kvótaeigendur selja af einhverjum ástæðum kvóta í þeim mæli að stoðum er slegið undan heilum byggðarlögum þarf samfélagið með einhverjum hætti að koma inn í það. Um það hélt ég að væri samþykki millum þingmanna. Ég ætla að nefna einn stað sem hugsanlega hefur eitthvert endurkast í hjarta hv. þingmanns, Flateyri.

Í annan stað ætti formaður Sjálfstæðisflokksins að vita af því að það liggur fyrir álit frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem er þess eðlis að við þurfum að svara því með einhverjum hætti. Ég er að minnsta kosti fyrir mína parta viljugur til að auka hlut strandveiðanna til að svara því áliti.