139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki fallist á það með hæstv. fjármálaráðherra að ekki hafi verið hugað að byggðamálum í tengslum við fiskveiðistjórnarkerfið. Ég ætla að taka það dæmi sem er auðvitað stærst og gleggst, sú ákvörðun sem var tekin á sínum tíma um það að byggja upp sérstakt fiskveiðistjórnarkerfi fyrir minni báta við hliðina á hinu hefðbundna aflamarkskerfi. Það var gert í byggðalegum tilgangi.

Sem betur fer hefur það kerfi þróast þannig að þar hafa menn líka tækifæri til að hagræða. Við sjáum auðvitað glæsileg dæmi um það þar sem eru öflugir bátar sem geta núna staðið undir hráefnisöflun fyrir fiskvinnslu allt árið um kring. Það hefur auðvitað skotið nýjum stoðum undir fiskvinnslufyrirtæki víða um landið. Við viðurkennum almennt að hin félagslegu úrræði þurfa auðvitað að vera til staðar í fiskveiðistjórnarkerfinu en við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að ekki er hægt að ganga endalaust fram í þeim efnum. 90% af kvótanum er á landsbyggðinni. Slíkar félagslegar tilfærslur fela þess vegna eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst í sér tilfærslur milli byggðarlaga. Ég held því að við ættum að reyna að horfa á þetta í einhverju samhengi. Reynsla síðustu daga þar sem við höfum tekist á um mjög erfiða hluti sem m.a. birtast í hinni umtöluðu 2. gr., færir að mínu mati okkur heim sanninn um það hversu mikla erfiðleika við erum komin í í þessu máli. Við þurfum að fara að nálgast þetta með öðrum hætti.

Það er út af fyrir sig fagnaðarefni ef það er mat hæstv. ríkisstjórnar að hagræðingin í sjávarútveginum og staða sjávarútvegsins sé þannig að hún beri hærra veiðileyfagjald. Það er út af fyrir sig viðurkenning á því sem þar er að gerast. Hins vegar verð ég að segja að þó við getum reiknað út að sjávarútvegurinn þoli eitthvað hærra veiðigjald mun það koma misjafnt niður. Þeir sem skuldugastir eru þurfa á allri sinni framlegð að halda til að standa undir skuldunum og það eru nú óvart mestan part einyrkjarnir og nýliðarnir í greininni.