139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[18:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að bæta miklu við hina ágætu framsöguræðu formanns þingskapanefndar, hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Hún fór rækilega yfir störf nefndarinnar og þær breytingartillögur sem nefndin gerir við frumvarpið.

Ég vil einungis segja í örfáum orðum frá því að ég tel að þær breytingar sem almennt er verið að gera við þingsköpin muni eða séu a.m.k. tæki til að bæta starf á Alþingi, að bæta löggjafarstarfið og efla að mörgu leyti stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og bæta stöðu minni hluta á Alþingi, stjórnarandstöðu hverju sinni, til að hafa áhrif á störf þingsins og gang mála.

Í greinargerð með frumvarpinu eru raktar helstu breytingarnar sem frumvarpið leggur til og í raun eru engin frávik frá því í vinnu nefndarinnar eða í nefndaráliti og breytingartillögum. Hér er mætt margháttuðum athugasemdum sem fram komu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og reyndar þingmannanefndar líka um það sem betur mætti fara í störfum Alþingis. Við erum að skýra og styrkja eftirlitshlutverk Alþingis. Við erum að straumlínulaga skipulag þingstarfanna með breytingum á nefndakerfinu sem ég er sannfærður um að verði til góðs jafnvel þó að það sé bráðabirgðaákvæði um að það skuli koma til endurskoðunar í ljósi reynslunnar, sem ég held líka að sé ágætt vegna þess að við vitum ekki nákvæmlega hvernig vinnuálagi verður skipt á milli nefnda eftir þessa breytingu ef af verður. Þess vegna er skynsamlegt að taka það til endurskoðunar um leið og reynsla er komin á það.

Það er líka verið að tryggja að Alþingi geti betur fylgt eftir þingsályktunum sem hér eru samþykktar með því að ríkisstjórnin leggi fram skýrslu. Síðan er verið að gera ýmsar breytingar á ákvæðum þingskapa og þeirri þróun sem orðið hefur á störfum þingsins undanfarin missiri og tel ég það allt til bóta.

Ég ætla ekki að fara í einstakar breytingartillögur sem lagðar eru til. Formaður nefndarinnar hefur útskýrt þær og gert það ágætlega. Ég vil þó segja að enda þótt fjórir af flutningsmönnum upphaflega frumvarpsins hafi átt sæti í þingskapanefndinni sá nefndin engu að síður ástæðu til að gera allmargar breytingar sem tilgreindar eru í 16 töluliðum í breytingartillöguskjali. Það helgast m.a. af því að það voru ýmis atriði í frumvarpinu sem menn höfðu ýmsar skoðanir á þegar frumvarpið var lagt fram en menn vildu engu að síður fá það til umfjöllunar. Þar voru nokkur atriði sem stóðu sérstaklega út af og voru skiptar skoðanir um. Þau höfum við krufið til mergjar. Það hafa verið skiptar skoðanir bæði í nefndinni en líka innan einstakra þingflokka sem á bak við nefndarmennina standa til einstakra mála en að sjálfsögðu geta auðveldlega verið 63 skoðanir á því hvernig rétt sé að skipuleggja þingsköp og vinnuumhverfi þingmanna.

Okkur hefur lánast, undir traustri forustu formanns nefndarinnar, hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, að ná samkomulagi um það sem við vorum kannski hvað mest ósammála um og fundið þar ágætar lausnir sem við erum reiðubúin til að láta reyna á og taka þá frekar til endurskoðunar atriði ef það kemur í ljós að þau ganga ekki upp.

Ég vil líka leggja áherslu á að ég tel mjög mikilvægt þegar verið er að fjalla um þingsköp Alþingis, starfsumhverfi okkar, að breið samstaða sé milli stjórnmálaflokkanna á þingi um skipulag þeirra mála. Það hefði ekki verið góður kostur að leggja af stað með umfangsmiklar breytingar á þingsköpunum, kannski þær viðamestu sem gerðar hafa verið um langa hríð, með skipt lið. Það kostaði að sjálfsögðu alls konar málamiðlanir en ég held engu að síður að það hafi verið mjög eftirsóknarvert að ná svona góðri samstöðu í nefndinni. Ég ítreka þakkir mínar til formanns nefndarinnar, hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fyrir það hvernig hún hefur haldið á störfum nefndarinnar og lagt sig í framkróka við að sætta ólík sjónarmið. Ég þakka einnig öðrum nefndarmönnum allra flokka fyrir prýðilegt samstarf að þessu máli. Ég vona að það verði Alþingi, löggjafarstarfinu og okkur öllum til sóma og heilla í framtíðinni.