139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[18:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir vil ég byrja á að þakka fyrir þá vinnu sem var unnin í þessari nefnd og ég þakka formanni nefndarinnar fyrir að halda vel utan um störfin og okkur nefndarmenn. Ég þakka líka forseta og starfsmönnum þingsins fyrir framlagið til þessa máls. Starfsmönnum er sjaldan nógu oft þakkað hér, og forseta fyrir að keyra þetta mál áfram af miklum fítonskrafti.

Ég ætla ekki að fara í efnislega umfjöllun um breytingarnar eða málið. Það hafa aðrir þingmenn gert ágætlega. Það er verið að gera að mörgu leyti mjög merkilegar og stórar breytingar á þingsköpunum. Það er að sama skapi alveg ljóst að sumum finnst ekki nógu langt gengið og öðrum mun eflaust finnast of langt gengið. Þannig er það bara þegar við erum að ná samkomulagi og sátt um mál í þinginu. Yfirleitt þarf að mætast einhvers staðar. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að vinna með þingsköpin og er það tillaga okkar að áfram verði haldið þegar þing kemur saman aftur. Það er líka ljóst að að einhverju leyti má líta á þær breytingar sem hér er verið að leggja upp með sem tilraun sem vonandi tekst vel. Ef það er tilefni til að endurskoða eitthvað munum við að sjálfsögðu gera það en á heildina litið er ég í það minnsta mjög ánægður og stoltur af því að málið skuli vera komið í þennan farveg og komið á þennan stað. Ekki spáðu því allir að þessum þingmönnum sem hafa komið frá síðustu kosningum tækist að ná saman um þetta mál. Það hefur gengið á ýmsu í þinginu en þetta sýnir að þegar menn leggja mikið á sig og þegar málunum er stýrt í góðan farveg er ýmislegt hægt.

Á því ætla ég að enda orð mín, frú forseti, og þakka enn og aftur fyrir að við séum komin á þennan stað.