139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

þingsköp Alþingis.

596. mál
[18:26]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get ekki annað en tekið til máls við þessa umræðu til að þakka þingskapanefndinni fyrir alla þá vinnu sem hún hefur lagt á sig við að koma þessu máli í höfn fyrir lok vorþings. Það tel ég mjög mikilsvert og allir þingmenn í þingskapanefnd eiga heiður skilinn fyrir að hafa lagt það á sig og náð þessum árangri.

Mig langar líka að nefna Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrrverandi alþingismann og núverandi rektor á Bifröst, sem leiddi starfið við gerð skýrslunnar um eftirlitshlutverk Alþingis sem þessar breytingar byggja að mörgu leyti á, og allt samverkafólki hennar við þá vinnu og sömuleiðis við að undirbúa fyrsta frumvarpið sem lagt var fram til kynningar fyrir ári í þinginu og hún átti stóran þátt í að undirbúa.

Mig langar líka til að þakka öllum starfsmönnum Alþingis sem hafa komið að þessari vinnu. Þeir hafa líka lagt mikið í að gera þetta mál eins vel úr garði og unnt var. Ég nefni skrifstofustjóra Alþingis og starfsmann nefndarinnar, Ingvar Þór Sigurðsson, sem hafa verið vaknir og sofnir yfir þessu verki. Ég hef trú á því að þær breytingar sem hér eru að verða á þingsköpunum og þar með starfsemi Alþingis verði þinginu til heilla, en það er auðvitað undir okkur öllum komið að sem best takist til við framkvæmdina. Það er mjög mikilvægt.

Mig langar til að þakka öllum þingflokksformönnum sem voru við vinnuna við að undirbúa málið áður en það kom til þingskapanefndarinnar. Þeir lögðu líka mjög mikilvægt starf af mörkum. Að síðustu þakka ég hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að leiða nefndina. Það er ljóst að hún hefur verið með styrka stjórn á nefndinni og allir hafa lagt sig fram og náð niðurstöðu sem ég held að við getum öll verið sátt við og menn hafa komist þar að góðri niðurstöðu að lokum.

Ég þakka að lokum öllum sem hafa komið að þessu verki við að gera þetta mál eins vel úr garði og unnt var. Þakka ykkur kærlega fyrir.