139. löggjafarþing — 153. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í upphaflegu frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var gert ráð fyrir því að jöfnuðurinn í félagslegu pottana yrði með þeim hætti að allir sem fengju úthlutaðar heimildir í þorskígildum talið mundu taka þátt í þeim. Það hefur verið þannig að einungis fjórum tegundum hefur þurft að skila inn í þessa samfélagslegu potta. Nú er alltaf verið að auka í þá. Það er líka í samræmi við — frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er einmitt í samræmi við þá niðurstöðu og þær tillögur sem eru í greininni sjálfri, þ.e. innan þeirra aðila sem starfa í greininni sjálfri, að allir leggi jafnt inn í samfélagslegu pottana. Ég harma það mjög að það skuli vera gert með þeim hætti að búið er að þynna þetta út. Í gær var talað um 1/3 á þremur árum en nú er það komið niður í 25% sem segir okkur að einungis stærstu, öflugustu útgerðirnar komast áfram upp með það að leggja ekki í nægilega mikið inn í samfélagslega potta. En eigi að síður skal það viðurkennt að þetta skref er þó skárra heldur en staðan er í dag. Þess vegna sit ég hjá við þessa atkvæðagreiðslu.