139. löggjafarþing — 154. fundur,  11. júní 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[19:30]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa komið þessu á dagskrá hér í lok þingsins. Ég held að það sé mjög vel við hæfi að við sameinumst öll um að afgreiða réttindagæslu fyrir fatlað fólk hér á lokamínútunum á þessum vetri. Það er mikið fagnaðarefni hve vel hefur tekist að vinna úr málefnum hvað varðar fatlað fólk. Ég vil þakka hv. félags- og tryggingamálanefnd og þeim hv. þingmönnum fyrir frábæra vinnu í vetur og mikla samstöðu og gott samstarf um að vinna ötullega að réttarbót fyrir fólk með fötlun.

Ég vil taka fram hér að þó hv. þm. Pétur H. Blöndal bendi á að mikilvægt hafi verið að ná þessu inn, þá var trúnaðarmannakerfið komið á sem betur fer, þarna er því breytt í því að kalla það réttindagæslumenn. Það er búið að fjölga þar úr því sem áður var um eitt og hálft starf, er komið upp í 5,5 störf í þessari vinnu í vetur. Þannig hefur það verið í málaflokknum í heild að við höfum verið að bæta vel í. Þannig á það líka að vera, því að ég held það sé sameiginlegt álit (Forseti hringir.) allra þingmanna hér í salnum að þetta sé sá hópur sem við viljum gæta sérstaklega að.