139. löggjafarþing — 154. fundur,  11. júní 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[19:31]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Sú mynd sem langoftast og iðulega er dregin upp af Alþingi er mynd af illdeilum og gífuryrðum, af fólki sem engan veginn getur komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. Raunveruleikinn er sem betur fer allt annar. Hér er oft og tíðum líka unnið af mikilli samstöðu og einurð þar sem þingmenn allra flokka sameinast um að horfa ekki á flokksskírteinin heldur á málefnin. Það er svo í þessu mikilvæga mannréttindamáli um réttindagæslu fatlaðs fólks þar sem þingmenn allra flokka hafa komið saman. Það er þess vegna vel við hæfi, eins og aðrir hafa sagt, að þetta sé síðasta málið á dagskrá þessa þings fyrir hlé sem er þá vonandi góðs viti fyrir sumarið og næsta haust, að við séum hér að sameinast í áfanga og skrefi í mannréttindamálum á Íslandi þótt vissulega sé löng vegferð fram undan. Þar verðum við einmitt öll að taka höndum saman í framhaldinu.